Hitinn hækkar.

Ekkert lát á hitanum og hann hækkar. Skógareldar farnir að ógna okkur hér en við höfum verið mjög heppin í sumar hvað þá varðar. Við misstum 11 slökkviliðsmenn í einum og sama eldinum í fyrra sumar.

Annars erum við öll mjög slegin hér eftir skyndilegt andlát unga fótboltamannsis Antonio Puerta sem dó aðeins 22 ára í gær. Hann lætur eftir sig unnustu sem komin er 7 mánuði á leið með fyrsta barn þeirra. Fjölskylda hans virti ummæli sem hann hafði einhvertíma látið frá sér um að ef hann dæi ungur vildi hann gefa líffæri sín. Svo læknar á sjúkurahúsinu þar sem hann dó unnu þarft verk í gær og vonandi munu líffæri hans bjarga nokkrum lífum. Þetta er nokkuð sem mér hefur lengi fundist mjög áríðandi að fólk hugsi um. Þegar ég flutti til Englands 1994 og skráði mig í sjúkurasamlagið þurfti ég m.a. að útfylla pappíra þar sem spurt hvort ég vildi gefa líffæri mín. Ég ákvað að auðvitað myndi ég gefa öll þau líffæri sem nothæf væru. Þegar Binni minn svo flutti til mín ári seinna þurfti ég að gera slíkt hið sama með hann. Við ræddum málið og hann gat ekki hugsað sér að líffæri sín yrðu fjarlægð ef hann dæi, enda bara 10 ára þegar þetta var. Núna hins vegar er hann annarar skoðunar.

Fleiri dóu hér í gær. Einn frægasti nautabani “gömlu daganna” dó og einnig einn virtasti og vinsælasti rithöfundur Spánar. Svo fréttirnar hafa verið yfirfullar af umræðum um þessa 3 menn. En í morgunfréttunum stóð þó ein frétt eins og rauð skvetta á skjánum, 52. konan hafði verið myrt af maka/fyrverandi maka. Þetta er hræðilegra en tekur nokkrum orðum.

En lífið heldur áfram og ég hef helgina til að hlakka til. Vinkona mín sem býr hér er karlalaus um helgina og við ætlum að njóta lífsins saman, fara á ströndina, út að borða og á Benidorm Palace sem er að halda upp á 30 ára afmæli sitt. B.P. er skemmtistaður þar sem haldnar eru einhverjar flottustu danssýningar og aðrað sýningar, sem hugsast getur. Kabarett er þetta venjulega kallað hjá farastjórum. 

Heyrumst.

Fært undir . 1 ummæli »