Göngugarpur

Jæja þá er ég byrjuð að ganga aftur í vinnuna eftir óhappið, búin að ganga tvisvar og einu sinni til baka. Í morgun var ljúft að ganga því það var skýjað og smá vindur, en ég fer hægar en áður. Þessar tvær tær sem brotnuðu þurfa að leika lausum hala þannig að ég varð að fara á háhæluðum opnum skóm, þeim sömu og ég var í þegar ég hrapaði. En ég komst alla leið og er ánægð með sjálfa mig.

Mannlífið á ströndinni er ákaflega fjölskrúðugt. Sumir liggja sofandi eftir djamm næturinnar, aðrir eru að skríða í ýmsu ástandi heim af djamminu, enn aðrir og þeir eru margir eru á morgunskokkinu bullandi sveittir og margir mjög stæltir. Svo eru auðvitað þúsundir mættir á handklæðin til að verða brúnir. Ég skamma sjálfa mig í hvert skipti sem ég geng á milli að vera ekki búin að kaupa mér svitaband um ennið, maður svitnar ekkert minna en skokkararnir í hitanum.

Úti að borða í hádeginu í gær!!! Ekki þar fyrir að ég borða jú alltaf á hverfisbörunum í hádeginu, en það er nú bara salat eða brauðmoli. Í gær buðum við ömmu Gabriels í hádegisverð því hún varð 89 ára daginn áður, þ.e. á Dýrlingadaginn. Og enn eins og unglingur. Auðvitað var borðað að spænskum sið og teknir 3 tímar í það. Sigga Rúna tengdadóttir mín skrifaði í athugasemdir við Dýrlingadags bloggið hvað hún saknaði mikið matarins hér á Spáni, en hún bjó hér og vann í eitt ár. Ég veiti ekki Sigga mín hvort þú manst að það voru 6 ár síðan þú komst til okkar (til að vinna og læra spænsku) 15. ágúst, á Dýrlingadaginn. Já tíminn líður hratt.

Það er aldrei að vita nema ég skjóti inn eins og einni uppskrift um helgina, ég ætla að “bulla” eitthvað í eldhúsinu. Þarf að vera bundin heima um helgina því ég mun sjá um að hleypa öllum gestum út og svo hinum inn sem eru að koma í íbúðir í Villa Marina.

Vonandi eigið þið góða helgi öll sömul, og gaman væri ef þið væruð duglegri að kvitta fyrir heimsóknir. Það er svooo gaman að fá komment.

Fært undir . 1 ummæli »