HELGARLOK.

Sunnudagkvöld og helgin verið ævintýraleg. Ég borðaði á mjög góðum fiskistað á ströndinni í Altea á föstudagskvöldið var með góðum vinkonum, enskum. Við áttum hið skemmtilgasta kvöld. Í gærkvöldi vorum við Gabriel hjá ensku vinum okkar í Altea Hills eins og ég hef bloggað um áður. Kvöldið var dásamlegt, húsið þeirra er eins og þið sjáið í glamor bíómyndum. Við borðuðum úti á terrasi frá efstu hæðinni, þ.e. hæðinni þar sem gengið er inn í húsið. Eftir að hafa farið í gegnum tilkomumikla forstofu og borðstofu gengum við út á terras þar sem er setustofa, úti-borðstofan er síðan á samliggjandi terrasi. Þaðan horfum við yfir hæðina, Altea, Albir og allan flóann. Ef maður hins vegar lítur beint niður af terrasinu sér maður upplýsta sundlaugina með höfrungi í botninum. Húsið er á 3 hæðum og er sólarverönd á þakinu, merkilegt þar sem verandir eru á hverri hæð og mikið pláss umhverfis sundlaugina, en…svona vilja sumir búa. Brian vinur okkar hafði undirbúið vínsmökkun á rauðvínum, vitandi um bakgrunn Gabriels í þeim efnum. Hann hafði tekið fram 6 mismunandi vín og nú átti að smakka. Fyrst byrjuðum við á víni frá Suður Afriku áttappað 2001. Ég skráði allt samviskulega niður en gleymdi miðanum þar efra svo þið fáið nöfn og vínhús seinna. Þetta vín drukkum við fyrir matinn, stórkostlegt vín, mjúkt og fullt af bragði, rjómakennt vín. Síðan settumst við til borðs og með forréttinum drukkum við Campo Viejo Reserva 2002 og það svíkur jú aldrei. Með aðlréttinum kom svo toppurinn eða þannig. Venjan er að þegar verið er að smakka vín er alltaf byrjað á því yngsta og endað á því elsta. Vínið sem við drukkum með aðalréttinum er spænskt en ég mað ekki hvaðan, það var 32 ára gamalt. Gestgjafinn sem viðurkennir að hafa ekki mikið vit á vínum gerði þau mistök að opna ekki flöskuna áður en við komum svo vínið gæti andað vel. Svo við heltum því yfir á kareflu í dropavís svo það tæki sem mest súrefni á leiðinni og létum það bíða um stund. Niðurstaðan var mjög gott vín, en það er alltaf hætta með svona gömul vín, annað hvort eru þau góð eða ónýt. Ástæðurnar eru svo margar og misjafnar. Þar með lauk vínsmökkuninni þó vinur okkar hafi verið búinað stylla upp 6 mismunandi vínum. Matseðilinn var hins vegar mjög merkilegur. Ostar, ólífur og möndlur með fyrsta víninu, indverskur karryréttur með því næsta og grillaðar nautasteikur í aðalrétt. Ég fékk grænmetispai. Allt mjög gott en samsetningin sérkennileg. Flugeldasýningin var síðan um miðnætti og kom skemmtilega á óvart, því eins og ég sagði í fyrra bloggi þá er hún aldrei eins tilkomumikil séð ofanfrá eins og af ströndinni. En, fullkomið kvöld.

Í dag hef ég legið í sólbaði, um klukkan 18.00 fór að draga fyrir sólu og við sem þekkjum skýin sáum að rigning var að hellast yfir og hún yrði mikil. Í stuttu máli, það ringdi haglélum í golfboltastærð svo ég hljóp á milli herbergja til að byrgja gluggana, síðan út á terras til að ganga úr skugga um að öll niðurföll væru laus við gróður. Þetta stóð ekki nema 15-20 mínútur en hvílíkt flóð og þrumurnar sem fylgdu. Í íbúðinni við hliðina á mér eru 5 ungar íslenskar stúlkur og þær upplifðu stórkostlegustu stund lífs síns. Allar á bikini hrópandi og dansandi yfir að fá að upplifa svona andartak sem þær hafa bara séð í fréttum. Þær komu til mín eftir að þessu lauk til að biðjast afsökunar yfir því hvað þær höfðu hátt!!! Skiljanlegt að gleðjast yfir náttúru undrunum meðan þau valda ekki skaða. 

Góða nótt.

Fært undir Matur. 1 ummæli »