Föstudagur.

Jæja, enn ein helgin að bresta á. Vikan hefur liðið ótrúlega hratt. Ekkert sértaklega skemmtilegt verið í gangi, og þó. Á miðvikudaginn komu stjúpa Gabriels og Oscar hálfbróðir hans frá Alcoy til að borða hádegismat með okkur. Það var auðvitað mjög skemmtilegt, við borðuðum á uppáhalds veitingastaðnum okkar á ströndinni, 6 saman því systir Gabriels og sonur hennar slógust í hópinn. Og borðuðum við eins og sannir Spánverjar? Ó, já. Byrjuðum á æðislegu salati, lárperu og krabba með mjúkri smjösósu, smokkfisk og önnur sjávardýr í forrétt og síðan sjávarréttar paellu!!! Æði. Í eftirrétt fengu flestir sér ferska ávexti eins og við gerum á sumrin. Ég melónu, sæta og safaríka.

Mikil flugeldahátíð í Altea annað kvöld og verðum við hjá vinum okkar enskum sem eiga hús í Altea Hills, hæðunum fyrir ofan Altea og ætlum að fylgjast með hátíðnni þaðan. Byrjum á að borða saman og svo skellur hátíðin á um miðnætti. Þetta er ótrúleg sýn, bæði er skotið upp úr fjörubotninum og svo utan af hafi. Venjulega er samin sérstök tónlist fyrir sýninguna sem skotið er upp í takt við. Oftast höfum við verið viðstödd hátíðina og förum þá í eftirmiðdaginn til að fá gott pláss á ströndinni, með mat og vín, teppi, kertaluktir ofl. Sytjum svo þarna í hópi vina og bíðum eftir sýningunni. Einu sinni höfum við verið hjá þessum vinum okkar og horft þaðan en það er ekki nálægt því eins skemmtilegt, þó ætlum við að gera það núna. Þessir vinir eru ekki svo oft hér því þau búa á Englandi. Annars er mikil vinna sem bíður um helgina, ágúst er alltaf mjög annasamur í leigum.

Svo, góða helgi öll saman, gaman væri að heyra frá ykkur.

Fært undir . Engin ummæli »