Komin heim.

Ég kom heim frá Noregi í gær. Við uglur, Erla Jónsdóttir, Lovísa Einarsdóttir, Sjöfn Kristjánsdóttir, Valgerður Jónsdóttir og ég eyddum saman 5 dögum í Romerikes Folkhögskole rétt utan við Osló. Þar hefur Lovísa íbúð á leigu í 2 mánuði og nutum við gestrisni hennar. Fyrst mætti ég og uppúr kl 07.00 daginn eftir komu hinar uglurnar. Við Lovísa búnar að undirbúa dýrindis morgunmat og tókum á móti þeim á hlaðinu. Tilefni Noregsferðarinnar var að halda upp á 20 ára afmæli uglanna og var það gert með veisluhöldum daglega. Við gengum mikið í undurfögru umhverfi skólans, gengum oft í næsta bæ, eyddum degi í Osló þar sem við lögðum blómvönd við styttu Ólafíu Jóhannsdóttur en hún var íslensk kona sem bjó og strfaði í Osló. Ólafía vann gott og mikið starf í þágu þeirra kvenna sem minnst máttu sín í þjóðfélaginu. Má lesa um hana í bók sem Sigríður Dúna skrifaði og kom út fyrir stuttu. Eftir að hafa heimsótt styttuna héldum við í hverfið þar sem Ólafía starfaði og bjó, settumst þar á kaffihús og létum hugann reika aftur til aldamóta 1800-1900 en þá var Ólafía þar. Síðan eftir göngu upp Karl Johan stórgötuna héldum við í hallargarðinn þar sem við borðuðum hádegismatinn sem við höfðum útbúið heima áður en við fórum. Ekta flott picknick, dúkar og rauðvín. Þá skoðuðum við National Museum þar sem m.a. eru geymd listaverk hinna ýmsu stórmálara. Ópið fræga sem Edvard Munch málaði er aftur komið á sinn stað eftir að hafa verið í höndum ræningja í fjölda ára. Síðan skoðuðum við lágmyndir á veggjum ráðhússins, en þær segja sögu úr goðafræðunum. Enduðum svo heimsóknina til Osló með því að borða á undurgóðum veitingastað við höfnina.

Aðra daga notuðum við til að njóta lífsins í okkar næsta umhverfi. Mikill skógur er rétt við skólann og þar er líka tjörn. Uglur gengu í skóginum og sumar böðuðu sig í ískaldri tjörninni, en þar var yfirleitt mikið af fólki með börnin sín við leik og böð. Hvert kvöld voru svo borðaðar dýrindis máltíðir sem við útbjuggum heima, sátum uppáklæddar við matarborðið, skiptumst á gjöfum, sungum og lékum okkur. Stórkostlegur tími sem leið allt of hratt. En við höfum eitthvað til að hlakka til því eftir 5 ár ætlum við að halda upp á 25 ára afmælið með ferð til þess staðar sem leiddi okkur saman, en það er Framnes foklkhögskolen í norður Svíþjóð. Þá ætlum við að flakka um Lappland eins og forðum, bæði sænska og finnska Lappland.

En nú er komið að því að fara í vinnuna.

Fært undir . Engin ummæli »