Biluð loftkæling.

Úps, loftkælingin á skrifstofunni er biluð og hitinn úti mikill. Það er þó bót í máli að það er ekki sól. Vöknuðum við rigningu í morgun, alsæl að fá loks rigningu. Það er nefnilega þannig að það kólnar alltaf svolítið eftir rigningu. Íbúar Sevilla eru beðnir að vera ekki að álpast út í dag nema þeir eigi erindi því búist var við að hitinn þar færi yfir 40C í skugga. Þessu fylgir svo alltaf skógareldar því miður. Víða um landið eru eldar en í morgunfréttunum var sagt að alls staðar væri búið að ná stjórn á þeim. Sumstaðar hefur fólk þurft að flytja úr húsum sínum því þau voru í hættu.

Ég ætla að eiga svo afslappaða helgi, helst ekki gera neitt nema færa mig á milli rúmmsins og sólbekkjarins, langar samt á ströndina. Trúið þið því að ég fór aldrei á ströndina í fyrrasumar, og ekki hef ég farið í sumar. Þetta er náttulega engin frammistaða, sérstaklega þegar litið er til þess hvað hollt er að baða sig í sjónum. En þetta vill gerast þegar maður hefur pottinn á terrasinu og sundlaug á hæðinni fyrir ofan. Svo er spurning, skyldu plön mín um afslöppun rætast! Frekar ólíklegt þar sem gestir eru að koma í og fara úr 23 íbúðum laugardag og sunnudag. Sú sem er á vakt veit hvað hún hefur að gera, en á svona helgum skríða nú bossarnir undan sænginni og hjálpa til, annað væri bara dónaskapur við stúlkuna. En hvernig væri að ég færi að fara út að borða eitthvað, klukkan er 15.00. Gabriel í líkamsræktinni eins og aðra daga, hann fer að verða að engu drengurinn, nei, nei engin hætta á því en hann er skrambi flottur.

Það er þegar búið að skemma afslöppunina fyrir mér, fékk símtal þar sem mér var sagt að sendiboði væri á leiðinn með miðana á Gala eitthvað sem við erum boðin til á laugardagskvöldið, ég var búin að gleyma því. Svo þá er bara að huga að klæðnaði fyrir fínheitin. En núna ætla ég ekki að láta neitt stoppa mig í því að fara út í hádegismat, kl. 15.30.

Fært undir . Engin ummæli »