Matur, matur og meiri matur.

Komin heim eftir að hafa borðað hefðbundin sunnudagsmat á veitingahúsi við ströndina. Veitingahús sem við veljum nær alltaf á sunnudögum. Þar sitjum við í mölinni undir sólhlífum og borðum. Staður sem íslenskum ferðamönnum dytti aldrei í hug að heimsækja. Spánverjar, fjölskyldur eða vinir borða venjulega saman á veitngahúsum á sunnudögum. Þarna vorum við með frænda Gabriels, konu hans og tveim dætrum. Fyrst fengum við brauð, alioi sem er hvítlauks maiones, marin tómat og niðursoðnar paprikur. Salat og sardínur. Svo kom Paellan…OH, hvílíkur unaður. Og eins og Alcoy manna er siður borðuðum við beint úr pönnunni, það er ótrúlegt hvað bragðið breytist þegar búið er að setja Paellu á diska. Að lokum fengu sumir sér eftirrétt og síðan kaffi. Það er eitt sem Íslendingar eiga erfitt með að skilja, Spánverjar drekka aldrei kaffi með eftirréttinum/tertunum heldur enda þeir á kaffi og líkjör. Að svona máliðið lokinni er bara eitt að gera, fara heim og taka siestu…

Fært undir . Engin ummæli »

Dagur 5, sunnudagur.

Ég er hægt og rólega að koma til. Í gær fór ég út í fyrsta skipti. Systursonur Gabriels hélt upp á 15 ára afmæli sitt og fór öll fjölskyldan að borða saman. Það var skrambi erfitt að hafa ekkert undir fæturnar en ég gleymdi verkjum fljótt því félagsskapurinn var skemmtilegur. Svo kom Óskar Marinó og foreldrar í heimsókn í gærkvöldi og við skemmtum okkur vel eins og venjulega Óskar og ég. 

Nú er Gabriel í kafi en meiningin er að borða Paellu í dag með frænda hans og fjölskyldu sem búa uppi í fjöllunum og eru hér í helgarfríi. En fram að því ætla ég að reyna að liggja í sólbaði.

Ég fékk lítinn gest í morgunmat, hann Bragi klóraði í hurðina. Bragi er kisan hans Gaua og kemur hér reglulega að sníkja sér mat og láta klóra sér. Hann er sérvitur köttur, vill bara kattarkex á meðan Xeno, Binna kisa kýs helst harðfisk þegar hann  kemur. Sem er sjaldan því hann er svo mikill hefðarköttur að hann vill að fólk komi til sín og þá með harðfisk meðferðis.

Njótið dagsins.

Fært undir . Engin ummæli »

Dagur 3.

Borgaði heldur betur fyrir þrifnaðaræðið í gær. Óþolandi að vera fastur heima og mega ekki eyða tímanum í löngu tímabær þrif án þess að sárin mótmæli með látum. Ég reyndar er svo heppin að hingað kemur yndisleg ung kona vikulega og þrífur, hún m.a. pússar allt gler í gluggum og það svo vel að maður gengur stundum á hurðarnar sem liggja út á terrasið því maður heldur að það sé opið. En það eru hlutir sem maður vill gera sjálfur, eins og af-frysta ísskápa ofl. En, nei takk, ég verð að bíða þess að gróa betur áður en ég fer í slíka hluti. Þá veit ég bara hvað ég geri í staðinn. Það er bunki af bókum sem ég á ólesinn, og blaðabunki sem ég þarf að fara í gegnum og henda því sem við viljum ekki eiga. Gabriel finnst að ég eigi að “njóta” þess að horfa á sjónvarpið, þar sé alltaf fullt af skemmtilegum þáttum um fræga fólkið á morgnanna og bíómyndir og sápur eftir hádegi. Heldur maðurinn að ég sé orðin elliær? Sjónvarpið bíður elliheimilisins, nema auðvitað fréttirnar og svo ein og ein mynd sem ég horfi á með honum, bara svona eins og venjulegt fólk gerir.

Lagðist út í sólbað í gær en flúði inn eftir stutta stund, hvílíkur ógnar hiti og engin andvari. Náði hreint ekki andanum, svo ég fór í rúmmið, setti loftkælinguna á fullt og fór að stúdera englaspil sem mér voru gefin. Ætla að halda því áfram í dag.

Núna er ég að fara að baka skonsur handa ungu fjölskyldunni sem fer væntanlega að koma í morgunmat til ömmu og segja henni frá ævintýrum gærdagsins. Munið að þau voru í Valencia og komu ekki heim fyrr en rétt undir miðnætti. Dásamlegt að fá þau í morgunmat, ég verð eitthvað svo mikil EKTA amma.

Hafið góðan dag öll sömul.

Fært undir . Engin ummæli »

Dagur 2 í vafningum og plástrum.

Ég er ekki í lagi…og ekki þið segja að þið hafið nú alltaf vitað það!!! Vaknaði í morgun eftir ágæta nótt en ferlega var vont að stíga fram úr. Eftir að hafa hökt um smá stund þóttist ég nú vera miklu betri. Óskar Marinó og foreldrar komu í morgunmat og fóru síðan til Valencia þar sem þau ætla að eyða deginum.  Amman sem átti að fara og leggja sig með fæturna hátt fór hins vegar að skipta á rúmminu, þvo og þrífa eldhúsið. Hvað fékk ég svo út úr því? Jú, ég er að drepast núna. Búin að taka verkjatöflu og eftir að hafa bloggað ætla ég að leggjast út í sólbað. Hér kemur svo uppskriftin af fylltu kjúklingabringunum sem ég var með um síðustu helgi og allir dásömuðu í hástert. Ég fór til slátrarans míns til að kaupa 4 bringur og hann skar þær eftir kúnstarinnar reglum þannig að hver bringa varð mátulega þunn til að rúlla upp, ef þið hafið ekki aðgang að slíkum þá er að fletja sjálfur. Það er gert þannig að hver bringa er skorin í 3 sneiðar eftir endilöngu en ekki má skera alveg í gegn, heldur verður hún eins og saltfiskflak, eða þannig.

Kjúklingabringur fylltar með skinku, ferskum jurtum og þurrkuðum tómötum.

Sem sagt, 4 kjúklingabringur, 1/2 laukur, 150 gr. sveppir í sneiðum, 6 brauðsneiðar (1-2 daga gamalt), safi úr 1 sítrónu, 1 1/2 glas vatn, 1 1/2 súputeningur, ég notaði grænmetis og þá bara 1 því þeir eru sterkir, hveiti til að velta upp úr, 100 gr. rifin parmesan ostur, 1 msk. brauðmylsna, salt og pipar, 1 vínglas af blönduðum ferskum kryddjurtum td. saxaður vorlaukur, basil, timian, persil, þetta fyllti lítið vínglas hjá mér, 2 hvítlauksrif, þunnar skinkusneiðar 4-5, 1 búnt persil, 100 gr. þurrkaðir tómatar sem hafa legið í bleyti þerraðir og skornir í strimla, 1 vatnsglas olía, 2 glös gott hvítvín.

Fyrst gerði ég jurtafyllinguna, þ.e. í matvinnsluvélina setti ég brauðið, parmesan ostinn og allar jurtirnar, blandaði því vel saman. Lagði bringurnar á borð, kryddaði þær með salt og pipar og setti skinkusneið á hverja þá brauð-jurta mylsnuna og raðaði svo tómötum ofan á. Rúllaði þétt upp og festi saman með tannstönglum. Það var gaman að eiga við hliðarnar og reyna að loka þeim sómasamlega svo allt dytti nú ekki úr. Þegar þetta var búið hitaði ég olíuna og velti bringunum upp úr hveiti og steikti vel, snéri þeim oft á meðan. Setti þær svo á fat til geymslu á meðan ég gerði sósuna. Í potti steikti ég laukinn og hvítlaukinn ásamt ca. 1/2 persil búnti, þegar það var fallega gyllt bætti ég brauðmylsnunni í, hrærði aðeins og hellti svo vatninu og víninu yfir, þarna kom svo grænmetisteningurinn í líka. Sauð upp smá stund og hrærði í á meðan. Raðaði svo bringunum í pottinn og sauð undir loki. Næst setti ég sveppina í annan pott með sítrónusafanum og lét það sjóða ca. 5 mín. hellti því þá yfir bringurnar og sauð með þar til allt var tilbúið c.a. 15-20 mín. Þetta heppnaðist mjög vel, tók dálítin tíma í undirbúningi og ég á þó nokkurn afgang af fyllingar mylsnunni sem ég setti í ísskápinn og ætla að velta fiski upp úr og steikja svo.

Þetta myndi vera fyrir 4 sem aðalréttur. Við vorum með fleiri rétti, eldaða og grillaða þannig að fólk fékk sér sneið af bringu (og svo aðra). Ég var með bakaðar kartöflur og pasta og svo auðvitað fullt af brauði. En ef ég geri þennan rétt aftur og þá sem aðalrétt eftir góðan forrétt myndi ég baka kartöflusneiðar í olíu til að hafa með, og ekki má vanta fallegt gott salat. 

Látið mig vita ef þið reynið þetta.  

Fært undir . Engin ummæli »

Slösuð heima.

Meiri bansettur klaufi sem ég er. Fór í gær í æðislega ferð með Gumma, Toný og Óskari Marinó. Fórum upp í fjöllin til Alcoy og eyddum deginum þar. Ég gat sýnt þeim eitthvað fallegt og áhugavert, vön skoðunarferðum þangað og þetta er jú fæðingarborg Gabriels. Eftir að við komum til Benidorm fengum við okkur að borða á mjög góðum indverskum stað og svo heim. Toný og Óskar löbbuðu með mér úr bílnum í mitt hreiður og haldið ekki að mér hafi tekist að hrynja niður stiga á milli hæða hér úti. Auðvitað á háum hælum;-) Fékk smáskurð sem þó blæddi helv. mikið úr á vinstra hné, snéri vinstri öklann, og stóra tá á hægri fæti ásamt þeim tveim næstu bólgnar og bláar ein og ófreskjur, auk þess sem ég er með stóra bólgu á vinstri handlegg. Hallærislegt. Gabriel sagði; það var eins gott að Toný og Óksar voru með þér annars hefði fólk farið að giska á allt annað og horfa í áttina til mín… versta var að hvítu fínu buxurnar mínar rifnuðu illa og voru auk þess blóðugar svo ég þurfti að henda þeim.

Annars höfum við átt dásamlegan tíma saman. Óskar Marinó og amma eru kafandi í pottinum öll kvöld og alla sl. helgi. Ég var með allan hópinn minn í mat á laugardagskvöldið og aftur á sunnudaginn. Við grilluðum en auk þess gerði ég tilraunir með tvennt nýtt, humar og rækjurétt og fylltar kjúklingabringur. Ætlaði að lauma hér inn uppskriftinni af kjúklinga réttinum en er orðin svo ansi þreytt í sárunum svo ég ætla í rúmmið. En lofa að setja hann inn fljótlega, fyrir næstu helgi.

Látið ykkur líða vel.

Fært undir . 1 ummæli »

Ömmustrákur og uppskrift.

Nú er ömmustrákurinn hann Óskar Marinó hér ásamt foreldrum sínum. Eins og þið vitið væntanlega öll þá komu þau daginn sem ég fór til Osló. Við hittumst í hádegismat í fyrradag þegar ég kom heim. Ég kom beint af flugvellinum og fór í matinn þar sem öll fjölskyldan var saman komin. Hann hefur stækkað svo mikið síðan í mars er ég var á Íslandi, að ég tali nú ekki um þroskann sem auðvitað eykst með degi hverjum. Við vorum svo saman svolítið í gær og borðuðum saman í gærkvöldi. Litla fjölskyldan er að plana ferðalag til annara staða á Spáni og ætla að leggja upp á mánudaginn. Þau eru ekki ákveðin hversu lengi þau verða en tala um 4 daga svo amma fær strákinn fljótt aftur.

Uglur hafa sent mér uppskriftir í gegnum árin í uppskriftabók Uglanna sem ég hef haft í undirbúningi. Ekki er nú meiningin að gefa hana út á almennan markað heldur er hún hugsuð fyrir okkur sjálfar. Í Noregsferðinni bulluðum við nokkra rétti sem munu fara í bókina, svo erum við allar óhræddar og duglegar að prufa okkur áfram í eldhúsinu, þannig að mér sýnist sem bókin sé að verða nokkuð myndaleg. Ég skal skjóta einni og einni uppskrift hér inn til gamans. Byrja þá bara á sultuðum lauk sem ég geri oft og er hægt að borða með nánast öllu. Hann er þó sérstaklega góður með paté og grilluðum mat.

Ég hef meir að segja sultað á krukku og gefið í jólagjöf.

Hvítur eða rauður laukur, eins margir og þið viljið en 3-4 er ágætt. Skerið eða saxið laukinn, fer eftir því hvaða áferð þið viljið, ég læt mér venjulega duga að skera hann í þunnar sneiðar. Síðan skelli ég honum í pott með svolítilli ólifuolíu og hræri í þar til hann er mjúkur og fallegur. Þá helli ég balsamik edik yfir, tómat púrru (1-2 dósir, ef þið eruð með minnstu stærð) og smá púðusykri. Læt þetta svo malla þar til lögurinn er orðin þykkur, 20-30 mín. Hann geymist vel í ísskáp.

Njótið vel.

Fært undir . 1 ummæli »

Komin heim.

Ég kom heim frá Noregi í gær. Við uglur, Erla Jónsdóttir, Lovísa Einarsdóttir, Sjöfn Kristjánsdóttir, Valgerður Jónsdóttir og ég eyddum saman 5 dögum í Romerikes Folkhögskole rétt utan við Osló. Þar hefur Lovísa íbúð á leigu í 2 mánuði og nutum við gestrisni hennar. Fyrst mætti ég og uppúr kl 07.00 daginn eftir komu hinar uglurnar. Við Lovísa búnar að undirbúa dýrindis morgunmat og tókum á móti þeim á hlaðinu. Tilefni Noregsferðarinnar var að halda upp á 20 ára afmæli uglanna og var það gert með veisluhöldum daglega. Við gengum mikið í undurfögru umhverfi skólans, gengum oft í næsta bæ, eyddum degi í Osló þar sem við lögðum blómvönd við styttu Ólafíu Jóhannsdóttur en hún var íslensk kona sem bjó og strfaði í Osló. Ólafía vann gott og mikið starf í þágu þeirra kvenna sem minnst máttu sín í þjóðfélaginu. Má lesa um hana í bók sem Sigríður Dúna skrifaði og kom út fyrir stuttu. Eftir að hafa heimsótt styttuna héldum við í hverfið þar sem Ólafía starfaði og bjó, settumst þar á kaffihús og létum hugann reika aftur til aldamóta 1800-1900 en þá var Ólafía þar. Síðan eftir göngu upp Karl Johan stórgötuna héldum við í hallargarðinn þar sem við borðuðum hádegismatinn sem við höfðum útbúið heima áður en við fórum. Ekta flott picknick, dúkar og rauðvín. Þá skoðuðum við National Museum þar sem m.a. eru geymd listaverk hinna ýmsu stórmálara. Ópið fræga sem Edvard Munch málaði er aftur komið á sinn stað eftir að hafa verið í höndum ræningja í fjölda ára. Síðan skoðuðum við lágmyndir á veggjum ráðhússins, en þær segja sögu úr goðafræðunum. Enduðum svo heimsóknina til Osló með því að borða á undurgóðum veitingastað við höfnina.

Aðra daga notuðum við til að njóta lífsins í okkar næsta umhverfi. Mikill skógur er rétt við skólann og þar er líka tjörn. Uglur gengu í skóginum og sumar böðuðu sig í ískaldri tjörninni, en þar var yfirleitt mikið af fólki með börnin sín við leik og böð. Hvert kvöld voru svo borðaðar dýrindis máltíðir sem við útbjuggum heima, sátum uppáklæddar við matarborðið, skiptumst á gjöfum, sungum og lékum okkur. Stórkostlegur tími sem leið allt of hratt. En við höfum eitthvað til að hlakka til því eftir 5 ár ætlum við að halda upp á 25 ára afmælið með ferð til þess staðar sem leiddi okkur saman, en það er Framnes foklkhögskolen í norður Svíþjóð. Þá ætlum við að flakka um Lappland eins og forðum, bæði sænska og finnska Lappland.

En nú er komið að því að fara í vinnuna.

Fært undir . Engin ummæli »

Á leið til Osló.

Þá er komið að því. Ég fer til Osló í fyrramálið og hvílík martröð að pakka. Í fyrsta lagi má ég ekki hafa nema 15 kg í farangur og þar er rauðvínið auðvitað. Af hverju, jú eftir hriðjuverkaárásir á USA var bannað að ferðast með vökva, krem, varaliti…í handfarangri. Svo nú fer rauðvínið, ostarnir, snyrtiraskan allt í ferðatösku, sem hér áður hefði verið val geymt í handfarangri. Svo ofan á allt eru þeir svo hallaærislegir “Sterling” að þeir leyfa 10 kg í handfarangur, en bara eina tösku. Ég er vön að ferðast með litla dömutösku sem rúmar snyrtidótið, farseðlana og peningabudduna, en núna er ég með flugfreyjutösku undir þessa hluti, ekki syrtidótið því það verður að vera í ferðatösku. Sem betur fer er þessi ágæta taska á hjólum. Ferðataskan er þegar orðin 15 kg. En ég þarf að fara með sængurföt, hlý náttföt og ullarsokka því ég er að fara í óupphitað hús, og það er kalt og blautt í Osló núna. Rennandi sveitt vegna hitans hér pakkaði ég og er örugglega með öll röngu fötin. Hvernig á maður að fatta að hvítar buxur og hvítt pils með rauðu einhverju að ofan, rauðum g hvítum doppóttum skóm er bara ekki að ganga í Osló. Ég pakkaði þó hvítu pilsi og buxum, nokkrum rauðum blússum+rauðum og hvítum doppóttum skóm með hæl opnum í tána og með slaufu. Ég trúi ekki öðru en það komi sól. Annars hlakka ég mikið til, Uglur eru með skemmtilegustu konum á jörðinni og prógrammið er stórt. Svo núna þegar klukkan er 01.30 kveð ég ykkur ágætu lesenur og vinir og ég mæti með nýtt blogg á miðvikudaginn kemur.

Góða nótt.

Fært undir . Engin ummæli »

Sunnudagskvöld eftir Gala veislu.

Dásamlegt sunnudagskvöld. Guðjón eldri borðaði með okkur ýmislegt úr hafinu sem Gabriel grillaði og ég útbjó kús-kús með þurrkuðum tómötum, bakaði brauð og hitaði upp eggjahræruna (með miklu grænmeti) sem hafði verið morgunmatur hjá okkur. Þið sem þekkið mig vitið að ég hef verið grænmetisæta (ljótt orð) í fjöldamörg ár, eiginlega 20 ár. En efitir að ég flutti til Spánar var það svolítið erfitt þegar farið var út að borða. Ekki það að fyrstu 2 árin höfðum við aldrei efni á því að borða úti. En yfirleitt er það þannig að ef maður borðar úti þá er allt sem í boði er fyrir grænmetisætur salat og grillað grænmeti. Þetta varð leiðigjarnt svo ég fór að borða túnfisk og sverðfisk, sem mér þykja mjög góðir. Og þar við situr, önnur sjávardýr eru stikk frí að ég tali nú ekki um kjöt sem ég gæti aldrei snert. Þó elda ég kjöt og þyki góður kokkur þar, en aðrir þurfa að smakka, sérstaklega sósuna ef kjötsoð er í henni. En ég ætlaði ekki að tala um þetta. Samt er einhvernveginn eins og allt snúist um mat þessa dagana:-) ekkert nýtt. Annað kvöld ætlar Haukur vinur okkar íslenskur kokkur sem hér dvelur mikið, að grilla fyrir okkur hér á okkar terrasi. Það verða 14 gestir og ég mun leggja eitthvað að mörkum, salöt, sósur ofl.

En það sem ég vildi segja var frá gala kvöldinu sem við vorum boðin til í gærkvöldi. Við vissum ekkert hvað við vorum að fara, höfum jú oft verið á gala kvöldverðum, Gabriel stendur fyrir einu slíku árlega (í oktober). Þetta var haldið í skemmtigarðinum stórkostlega Terra Mitica og við áttum að mæta kl. 21.30. Samtök viðskipta og verslunar stóðu fyrir þessu og var það í 9 sinn sem þau gera slíkt. Gabriel (og  ég) var boðin þar sem hann er varaforseti APTUR sem eru samtök skrifstofa sem leigja út íbúðir til ferðamanna, forsetinn er í sumarfríi svo við lentum í samkvæminu. Undrandi vorum við leidd til sætis næst háborðinu, úps…hvað er í gangi? Við hlið okkar sat vinur okkar, borgarstjóraframbjóðandi sósialista  í sl. 2 kosningum og fleiri sem við þekkjum. Við fengum á tilfinguna að embætti forseta APTUR þætti merkilegt. Alla vega, kl. 23.00 hófu loks ræðuhöld og verðlaunaafhendingar til einhverra sem unnið höfðu vel í þágu samtakanna. Að því loknu, rétt um miðnætti var farið að bera fram matinn, fyrst komu 5 “fyrir forréttir” þá forrétturinn, aðalrétturinn og loks eftirrétturinn. Að því loknu hófst verðlauna afhending til fyrirtækja og verslunna sem þóttu skara fram úr. Voru 4 fyrirtæki í hverjum hópi. Í hópi tískuverslana unnu góðir vinir okkar, okkur til mikillar gleði. Við vissum jú ekkert hvað við vorum að fara að upplifa þegar við lögðum að stað. Síðan kaffi og drykkir. Í ræðu viðskiptafulltrúa Benidorm og síðar ræðu borgarstjórans kom fram að 6 miljónir manna heimsækja Benidorm á hverju ári, og allir kaupa…Þannig er bara maðurinn. Við fórum glöð heim, höfðum lært eitthvað nýtt.

Nú á sunnudagskvöldi, eftir að hafa legið í sólinni allan daginn og borðað vel, sé ég rúmmið mitt í hillingum. Gabriel kaus að liggja inni og horfa á sjónvarp allan daginn, fannst allt of heitt til að fara út. En við erum sammála því að komin er háttatími.

Góða nótt.

Fært undir . 1 ummæli »

Föstudagur.

Jæja, langþráður föstudagur runnin upp heitur, mjög heitur. Í fréttum í morgun var farið yfir veðurspána fyrir helgina, áframhaldandi hiti, en við hverju býst maður við búum jú á Spáni og þar á að vera heitt. Hér bráðna engir jöklar og ógna yfirborði sjávar. Það var líka í fréttunum að hitametið á landinu var slegið í Cordoba í gær, 48C í forsælu og á miðnætti þar var hitinn 42C. Þó ég sé hrifin af sól og hita vildi ég ekki vera í slíkum ósköpum. Rafvirkjinn kom aldrei í gær svo hér sitjum við enn svitnandi með bilaða loftkælingu. Reynum að leysa máli með því að hafa opna glugga og hurðina út á ganginn, en hávaðinn frá umferðinni er skelfilegur. Þó er það skárra en kafna úr hita og loftleysi. Við hjónakornin vorum heima í gærkvöldi, fyrsta kvöldið í vikunni sem við borðum ekki úti, Gabriel eldaði pasta og síðan ætluðum við að horfa á bíómynd en ég auðvitað sofnaði á fyrstu mínútu (eins og alltaf). Svo ég get ekkert sagt um myndina, pass.

Úr pólitíkinni er lítið að frétta, eða þannig. En Gabriel ofl. eru boðaðir á fund eftir helgina með lögregluyfirvöldum vegna nýrrar aðferðar sem ETA hafa tekið upp í hriðjuverkastarfseminni. Þeir eru farnir að skilja eftir mobil síma á götunni og þegar saklausir vegfarendur taka upp símann springur hann. Hvernig verður brugðist við þessu hér er eitt af því sem verður rætt á fundinum. Fyrst og fremst verður að reyna að forðast að hræða ferðamenn, en samt er það skilda okkar sem þjónustum þá að gera eitthvað. Þetta eru aldrei auðveld mál. Ég er svo reið yfir því að ETA skildi lýsa yfir að vopnahlé yrði laggt niður, með því ná þeir engu fram.

Góða helgi. 

Fært undir . Engin ummæli »