Hversdagslíf.

Jæja, sælan búin og hversdagslífið tekið við með öllum sínum látum. Þessir dagar sem ég átti með Buddum voru unaðslegir, ég held ég gangi í klaustur. Magga vinkona skrifaði í athugasemdir við síðasta blogg og spurði hvort þeir hafi ekki verið ekta munkar í kuflum og allt. Jú, þarna voru ekta munkar á ýmsum stigum menntunar sinnar innan hreifingarinnar. Lama eða meistarinn var skrautlegastur en annars voru allir kennararnir eins klæddir, gular blússur og vínrauða vafninga. Það sem mér þótti einna merkilegast var að ein kona var í hópnum, hún er kennari við klaustur í Alicante og hef ég nú ákveðið að kynna mér Búdda fræðin nánar undir hennar leiðsögn. Ég mun byrja í september því lokað er yfir sumarmánuðina, þá eru kennararnir að fræðast meira sjálfir. Maturinn var mjög góður, grænmetismatur sem töfraður var fram af Ernesto, ungum munki, gullfallegum… Í einu orði sagt var þetta allt unaðslegt og ég hlakka til að fara aftur fljótlega.

En öll sæla tekur enda og hér er ég komin í vinnuna, klukkan orðin rúmlega 20.00 og við eigum mikla vinnu eftir áður en við getum lagst til hvíldar. Það er að koma flugvél frá Íslandi í kvöld og með henni fáum við gesti í tvær íbúðir. Þeir eru aldrei komnir hingað fyrr en eftir kl. 23.00, svo við verðum hér áfram og ætlum að skjótast út og fá okkur indverskt að borða. Þessa viku eru margir Íslendingar að koma til okkar í gistingu, bæði viðskiptavinir og fjölskylda svo ekki má slaka á. 

Svo kemur nú ömmustrákurinn og foreldrar hans 12.júlí, daginn sem ég fer til Osló. Ekki sérlega vel skipulagt, en…þau vissu ekki að ég væri að fara neitt og bókuðu sig í sínu fríi. Amma er nú ekki vön að fara langt á sumrin, en það var í farastjóralífinu, nú er sú gamla orðin skrifstofublók sem leyfir sér ýmislegt. En litla fjölskyldan verður hér í 3 vikur svo ég fæ að vera heilmikið með þeim. 

Þetta verður að nægja í bili. Skrifa kanske á morgun.

Fært undir . Engin ummæli »

Gleðilegt sumar!!!

Í dag, 21. júní kl. 18.56 á Spáni og 17.56 á Kanarí eyjum gengur sumarið formlega í garð, því líkur svo 5. september. Þá kemur haustið. Svo nú skiljið þið kanske af hverju Spánverjum þykir fyndið að sumardagurinn fyrsti sé í apríl á Íslandi. Annars heilsar sumarið með sól og hita um nær all land, okkur hér á Benidorm er spáð 34C í dag. Það verður heitara með degi hverjum að ganga til vinnu, en ég ætla ekki að gefast upp, þetta er svo skemmtilegt (og heilsusamlegt). Mannflóran á og við ströndina er stórkostleg. Það er áberandi mikið um Frakka núna. Þeir standa í hópum og spjalla á strandgötunni. Í morgun voru nokkrar franskar konur sem skáru sig úr fyrir klæðaburð. Stórkostlegar dömur, í síðum kjólum með hatta, mér fannst andartak ég vera komin í gamla enska skáldsögu, nema hvað tungumálið var annað.

Gaui minn átti afmæli í gær, varð 31. árs…jæja þá. Hvernig getur þetta verið og ég sem eldist ekkert? Hann hefur átt við meiðsl að stríða síðan um helgina og ég verið með hann á sjúkurahúsinu og heilsugæslustöðinni daglega, en nú horfir allt til betri vegar.

Við hjónakornin vorum boðin í grillveislu hjá enskum vinum okkar í Albir í gærkvöldi. Það var mjög skemmtilegt og sérstaklega gaman að vara í hóp eins og þessum, allir enskir nema við, og maturinn og framleiðslan öll eins og hjá ekta Spánverjum. Við sátum úti langt fram eftir og nutum næturinnar.

Í dag er ég á förum í Budda sentrið sem ég hef sagt ykkur frá. Fer í eftirmiðdaginn og kem heim á sunnudagskvöld nema ég ákveði að vera lengur. Pakkaði niður í morgun, mest voru það bækur, 2 buddar, kerti, hugleiðslutónlist ofl. Af fatnaði var nú ekki mikið, 3 stuttbuxur og bolir. Ég hlakka óskaplega mikið til. Gabriel mun nota tímann til að eltast við hafmeyjar. Svo bæði verðum við í einangrun á okkar hátt, hann á bólakafi í Miðjarðarhafinu og ég í hitanum inn á milli fjallanna.

Ekki fékk ég barnið í afmælisgjöf eins og þið vitið, en stúlka fæddist á alþjóða baráttudegi kvenna 19. júní. Frábært. Innilega til hamingju elsku Dísa mín og Dóri, Birgir og Helena, til hamingju með systurina. Magga síkat og Biggi, til hamingju með barnabarið.

Nú ætla ég að skreppa út og kaupa skó handa Töru Kristínu, það eru svo flottir skór á litlar prinsessur hér. Sigurrós starfsstúlka okkar fer til Íslanda á ættarmót í kvöld og tekur skóna með sér.

Skrifa eftir helgina og segi ykkur frá Budda og fleiru.

Góða helgi öll.

Fært undir . 1 ummæli »

Það er komin 17. júní.

Til hamingju með daginn. Klukan er reyndar orðin 18.00 hér og við að fara að gera okkur klár í þjóðhátíðarveislu,  eftir að hafa bakað okkur í sólinni í dag. Við höfðum orð á því að ef ekki væri fyrir þennan stórkostlega pott okkar þá gætum við ekki sólað okkur yfir sumartimann á terrasinu. Hvílíkur hiti…ef ströndin mælir 34C þá er terrasið okkar að mæla 39C og engin gola. Við settum Gaua í gjörgæslu yfir helgina, þ.e. við bókuðum hann á flott hótel í nágreninu eftir mikil veikindi. Hann m.a. leið út af þegar við tvö vorum að fá okkur langlokur í hádeginu og fékk krampakast. Tveir sjúkurabilar mættu á vettfang, ennar venjulegur og hinn sérbúin fyrir hjartatilfelli. Sá venjulegi fór með hann (og Gabriel) með sírenu og blikkandi ljósum á sjúkurahúsið, ég kom á eftir á okkar bíl. Ekkert hefur komið í lós enn og hann útskirfaðist af sjúkurahúsinu með fyrirmæli um frekari ransóknir. Svo við gáfum honum heilsuhelgi í afmælisgjöf, hann á afmæli 20. júní. Starfskona okkar úr hreinsunardeildinni er búin að vera að þrýfa hjá honum í dag og ég að þvo svo hann komi að öllu óaðfinnanlegu þegar hann kemur heim á morgun í eftirmiðdaginn. Og þá hefjast ransóknir.

Ég talaði við Lovísu íþróttar/pjatt uglu í gærkvöld varðandi Osló ferðina. Í ljós kom að uglur höfðu fundað daginn áður og ákveðið að biðja mig að koma með Camebert ídýfuost og stangir til að þýfa í, ásamt Jamon Serano, sem er þurrkuð fjallaskinka.  Ég spurði um vínfluttninga, því mig langar að koma með 4 flöskur af góðu rauðvíni, Lovísa fullvissaði mig um að þó ég kæmi með kassa myndu tollarar í Noregi ekki hafa neitt við það að athuga. Hvað eiga tollarar á Íslandi ólært???? Einu sinni kom ég með tvær rauðvín í ferðatösku sem var kyrrsett í tvo sólarhringa, ég er ekki að ýkja, þetta er heilagur sannleikur. Að lokum borgaði ég fyrir þessar flöskur og taskan kom. Síðan nenni ég ekki að gleðja fjölskyldu og vini með góðu spænsku rauðvíni. Ég veit heilmikið um einræði og lögregluríki (Franco tíminn) hafandi verið farastóri hér í 8 ár, en spurið mig álits á Íslandi og Keflavíkur flugvelli. Prump!!!!!!!!!!!

Í dag var árleg keppni í að hlaupi upp Bali hótelið, 52 hæðir 930 þrep. OG, sonur saumakonu okkar Gabriels vann annað árið í röð, 4,30 mínútur. Ég er ekki orðin svo fljót að skokka upp tröppurnar 326 þó ég fari fram og til baka daglega. Ekkert auðvelt á kvöldin að klifra upp.

Nú fer ég í sturtu og punta mig fyrir kvöldið.

Gleðilega þjóðhátið aftur.

Fært undir . Engin ummæli »

Heitur og erfiður dagur.

Það var puð að ganga í vinnuna í morgun, ég var 2 tímum seinna á ferð en venjulega og var á háum hælum og með þunga skjalatöskuna. Hitinn var komin í 31C. Ofan á það fann ég fyrir því að hafa drukkið rauðvín og kampavín í gærkveldi, sus og svei. En maður á nú ekki afmæli nema einu sinni á ári.

Kvöldið var mjög gott, við borðuðum á AGIR hótelinu sem er mjög fínt, Þórey vinkona Gaua er rosalega hrifin af þessum veitingastað. Sátum á terrasinu á efstu hæð og horfðum yfir Benidorm og ströndina. Sigurrós sem vinnur hjá okkur þurfti að hitta okkur svo hún kom og borðaði eftirrétt með okkur og tók þátt í kampavínsdrykkjunni. Þetta hljómar eins og við höfum drukkið í flöskuvís en aldeilis ekki, eina rauðvín með matnum og kampavín með eftirréttinum. Nammi namm.

Ekki fékk ég barnið í afmælisgjöf, en gjafir streymdu inn. Þetta var eins og stórafmæli, hálf vandræðalegt en æðislega gaman.

Nú er loks komið að matartíma og þar sem Gabriel er að eltast við hafmeyjar ætlum við stelpurnar á skrifstofunni að borða saman. Gabriel er komin á einhverskonar framhalds köfunarnámskeið sem tekur einhverja daga og svo verða próf. Þá á hann stutt í að fá atvinnukafara réttindi. Ekki að hann stefni á það enn sem komið er, hann hefur bara svo gaman að innramma diplóma,ha,ha,ha. Hann yrði nú ekki glaður með þetta komment mitt.

Hafið góða hlegi öll saman. 

Fært undir . Engin ummæli »

Afmælisdagur.

Hæ, ég á afmæli í dag. Gaman að vakna og fá pakka, bóndinn gaf mér dematslegið armband, það flottasta sem ég hef séð. Svo kom ég á skrifstofuna og þar fékkk ég annan pakka, flott hvítt pils, nákvæmlega það sem ég hef verið að leita að. Sigga systir sendi mér pakka um daginn, tvo boli sem eru líka mjög flottir. Svo er dagurinn nú bara rétt að byrja svo það er aldrei að vita nema pakkarnir verði fleiri. Helst er ég nú að vona að hún Dísa vinkona mín og dóttir Möggu vinkonu í saumaklúbbnum Síkátar, færi mér barn í afmælisgjöf, en hún er farin að bíða eftir að barnið komi í heiminn. Gerist það í dag segi ég ykkur frá því á morgun.

Við vorum að rifja upp fyrsta afmæli mitt hér á Spáni fyrir mörgum árum. Þá hafði vinur okkar gefið okkur fleiri kg. af appelsínum og ég bauð vinnufélögum Gabriels og systrum í mat sem allur var byggður á appelsínum. Forréttur, aðalréttur og eftirréttur, allt með appelsínu ívafi og Sangria með appelsínum drukkin með. Þetta var rosalega skemmtileg veisla.

Í kvöld ætlar Gabriel að bjóða mér út að borða, svo ég þarf ekki að velta vöngum yfir matseðli í mínu eldhúsi. Í staðin er ég farin að hugleiða hvað ég get eldað skemmtilegt um helgina. Er öll í því núna að búa til uppskriftir.

Reyndar er hópur sem ætlar að halda 17. júní saman á maxikönskum veitingastað í Albir. Þessi góði veitingastaður er í eigu Melkorku sem við höfum þekkt í mörg ár og vann með mér sem farastjóri sl. sumar. Það á að skreyta með fánum og blöðrum og spila “Það er komin 17. júní” ásamt öðrum ættjaðrar lögum. Pínu hallærislegt, en örugglega gaman.

Fært undir . 4 ummæli »

Hitt og þetta.

Ég ætla alltaf að vera svo dugleg og blogga daglega en eitthvað stoppar. Í gær t.d. fór ég í hádegismat með tveim stelpum og honum lauk kl 23.30. Það var auðvitað svona líka gaman hjá okkur og heilsan í dag bara í fínu lagi.

Það fjölgar á ströndinni með hverjum degi, ég tríla jú í vinnuna á morgnanna og þá eru á ferðinni einstaklingar og hjón ýmist á leið í sólbað eða bara í göngu eins og ég. Eitt og eitt vöðvastælt augnakonfekt finnst inn á milli en annars eru þeir meira á kvöldin þegar ég labba til baka. Það er orðið ansi heitt þegar ég fer að heiman upp úr kl. 09.00, í gær sýndi mælir á ströndinni 29C, en ég ætla ekki að gefast upp…

Hneikslismál er komið upp í næsta bæ. Bæjarstjórinn (úr hægri flokknum) sem hefur verið starfandi læknir í mörg ár og er 30% eigandi í klinikinni þar sem hann vinnur er bara engin læknir. Já, maðurinn hefur aldrei fengið réttindi, hann stundaði læknanám í einhvern tíma og fór svo bara að praktisera. 40 ára gamall, og ekki einu sinni eiginkonan hafði hugmynd um að hann væri réttindarlaus. Svo nú er búið að reka hann sem bæjarstjóra og á morgun verður hann kallaður fyriri dómara og ekki kæmi mér á óvart að hann færi í fangelsi. Vinstri flokkarnir í bænum eru búnir að mynda samsteypu bæjarstjórn.

Ekki nema mánuður þar til ég fer til Osló að hitta uglurnar, en áður en af því verður fer ég í nokkra daga í Búdda setur hér rétt hjá. Fer þann 22. júní og hlakka mikið til. En ég blogga nú áður en ég fer. Ég gerði mjög góðan grænmetisrétt á sunnudaginn sem ég ætti kanske að láta fljóta hér með.

3 egg, 200 ml. soiamjólk, 50 gr. parmesanostur, 1 msk. tomate frito (það eru maukaðir tómatar sem eru steiktir áður og smá ólífuolía í) en það er hægt að nota tómatpúrru eða maukaða tómata, salt, pipar og best á allt frá Pottagöldrum. 2 gulrætur, eitt bunkt af grænum ferskum aspars og smálaukur, hann er lítill haus með löngum blöðum. Veit ekki hvað hann heitir á Íslandi, en hann er örlítið sætur. Grænmetið gufusauð ég í 10 mín. skorið í bita, þeytti eggin, mjólkina og allt hitt saman. Blandaði svo grænmetinu í og setti í formkökuform og bakaði í vatnsbaði 40-50 mínútur. Mér hafði dottið í hug að búa til góða tómatsósu með en hætti við og höfðum við salat með í staðinn. Þetta var svo forréttur hjá okkur í tvo daga.

Nýja heimasíðan okkar er komin í loftið en ýmislegt að, svo það verður mikil vinna framundan að laga hana. Vantar t.d. alla íslensku og spænsku textana. En hún fór út í morgun svo kanske á þetta eftir að koma í dag. Ekki er það nú spennandi tilhugsun að þurfa að skrifa allt upp á nýtt. Nú ætlum við hjónin í kaffipásu.

Fært undir . Engin ummæli »

Túnfiskur og himneskt rauðvín.

Eins og yfirskriftin bendir til þá var marineraði “drukkni” túnfiskurinn grillaður í gærkvöld. Hann var æði! svo mjúkur eftir sólarhrings legu í hvítvíni að það hefði verið hægt að borða hann hráan. Kryddblandan sem er vægt til orða tekið mjög sérstök, tókst einnig mjög vel. Ég hef trúlega sett eitt glas af hvítvíni í skál og ca. teskeið af Piri piri kryddi, endaði svo með að strá Best á allt yfir. Auðvitað eru kryddin frá Pottagöldrum eins og 98% kryddanna í mínu eldhúsi. Svo prufaði ég að blanda saman austurlensku meðlæti, gerði kús-kús með austurlenskum kryddum, það var meðal sterkt og mjög gott. Þar sem salat og annað kál í ísskápnum var ekki ferskt þá fór það í ruslið, en ég þurfti jú að gera salat svo ég tók niðursoðnar paprikur í hvítlauk og ólívuolíu og blandaði þeim með ferskum osti. Ferskur ostur er ekki ósvipaður Mosarella en léttari og mýkri. Gabriel grillaði sér síðan andarbringu í aðalrétt, en túnfiskurinn og meðlætið dugði mér. Með þessu drukkum við svo himneskt rauðvín, Campo Viejo, Gran Reserva.

Sólsetrið var rautt og í kjölfarið stjörnubjartur himinn.

Fært undir . Engin ummæli »

Mánudagur

Jæja, þá er ég sest við bloggið aftur. Síðasta vika leið á tvöföldum hraða, eins og ég sagði ykkur í síðasta bloggi þá fór Gabriel til Madrid þar sem hann gerði góð viðskipti og síðan héldum við helgina á yndislegu hóteli í námunda við Cartagena borg. Sjöfn Ólafsdóttir vinkona okkar var að halda upp á 65 ára afmæli sitt, daginn áður fengu þau hjón og fjölskylda þeirra afhent glæsilegt einbýlishús sem þau keyptu þar í grendinni. Guðjón kom frá Madrid á laugardaginn og kom beint í veisluna. Þetta var allt mjög skemmtilegt.

Í gær eftir að hafa tjekkað okkur út af hótelinu, hittum við Sjöfn og Eyjólf skoðuðum okkur um svæðið og borðuðum síðan saman hádegismat. Eftir að við komum heim lagðist ég á sólbekk á terrasinu okkar og sofnaði þar. Ætlunin hafði verið að borða gott í gærkvöldi og ég lagði túnfisk í hvítvíns-marineringu, sem er þar enn. Við borðum það þá bara í kvöld. Vorum ekki svöng í gærkvöldi og ég fór snemma að sofa. Ef einhver hefur áhuga á marineringunni þá setti ég hvítvín í skál og blandaði Piri-piri kryddi og best á allt í, frá Pottagöldrum auðvitað, þeirra er mitt uppáhalds krydd. Hvernig þetta kemur út skal ég segja ykkur á morgun, þar sem fiskurinn liggur enn í bleyti. Ég mun hafa kús-kús og gott salat með.

Í dag er eins og undanfarið, mjög heitt og sól svo kvöldið verður ljúft á terrasinu.

Fært undir . 1 ummæli »