Stjórnmál og veður.

Ég ætlaði að vera búin að blogga oft þessa viku, en annir ofl. komið í veg fyrir það. Svo nú sit ég hér með tölvuna á hnjánum kl. 02.20. Ég er ekki svo löngu komin heim frá flugvellinum og innritun farþega á hótel, mörg hótel. Já, ég lét plata mig í einkennisbúninginn aftur, eitthvað sem ég var búin að segja að ég myndi ekki gera. OG vitið hvað…ég veit ekki hvað ég fæ fyrir. Samstarfsmaður minn til margra ára fór í frí og bað mig að vinna fyrir sig, ég sagði já, en datt ekki í hug að spyrja hvað ég fengi greitt fyrir. Svo nú er sjálfboðaliði hlaupandi um allt í og veit ekki nema það sé sjálfboðavinna. Nei, ég segi bara svona, auðvitað fæ ég laun, ég bara veit ekki hver þau verða. Þetta heitir að láta taka sig í…

En yfirskriftin er stjórnmál og veður. Ég er yfir mig ánægð með að mínar konur eru komnar í ríkisstjórn, kom mér reyndar á óvart að þær ættu samleið með Sjálfstæðisflokknum, en ég er svo löngu flutt í burtu að ég veit ekkert. Er ég þó í nánu sambandi við margar þeirra, m.a. einn af nýju ráðherrunum. En svona er pólitíkin. Ég tók stöðuprófið sem nemendur á Bifröst gerðu fyrir kostningarnar og hvað!!!!!!Jú ég er Framsóknarkona!!! Gabriel (hægri maður) tók það líka og fann út að hann er Samfylkingarmaður. Hann er búin að lofa sósiallistum atkvæði sínu nú á laugardaginn í borgarstjórnarkostningunum hér. Hafði þó ekkert með Bifrastar prófið að gera.

Það er mikill spenningur fyrir kostningarnar á laugardaginn. Síðasta könnun segir að hægri fái 16 manns í borgarstjórn á Benidorm og vinstri fái 16, jafnara getur það ekki verið. Annars er ég róleg, auðvitað vinna vinstri. Borgarstjórinn hér er tannlæknir sem rekur stofu. Hvað ef Davíð hefði verið starfandi lögfræðingur meðan hann var borgarstjóri? Einhver hefði sagt að borgarstjórastarf væri fullt starf. Svo sést þessi blessaði maður aldrei á kaffihúsum og tapasstöðum, “minglar” ekki við borgarana eins og vinstri maðurinn sem alltaf er tilbúin að hlusta á alla í bænum og drekka kaffi með þeim.

Veðrið hér hefur verið undarlegt. Á meðan stormur og ofsa rigning hefur gengið yfir Spán höfum við hér ekki orðið vör við neitt. Sól og hiti. Við bara horfum á fréttir og sjáum vatnsdýpt í húsum og á götum upp á 1 1/2 metir. En við erum þó ekki utangátta því lestarteinar á milli bæjanna hér fóru í sundur vegna vatnselgs. Vatnið frá t.d. Madrid leitar í Miðjarðarhafið og allar ár hér eru líflegar svo ekki sé meira sagt. Fleiri þúsundir manna komust ekki leiða sinna vegna þess að í yfir 24 tíma rann engin lest héðan. Já, veðrið í heiminum er að breytast.

Nú er klukkan að verða 03.00 svo ég held ég skríði í rúmmið, þarf jú að vera frísk og flott í viðtalstímum á hótelunum á morgun. Farastjórinn í sjálfboðavinnu bíður góða nótt.

Fært undir . Engin ummæli »