Veislur hjá hægri og vinstri og karlinn í kafi.

Þá er ég mætt við splunku nýju töllvuna mína. Binni minn búin að færa öll gögn úr hinni og ég tilbúin í slaginn. Þ.e. að læra alminnilega á þessa.

Undanfarin vika hefur verið annasöm á öllum sviðum. Tengdamma, þ.e. mamma Guðjóns, bróðir hans og mágkona eru hér og höfum við gert skemmtilega hluti saman. Obba “svilkona” kom á undan hinum, kom sl. laugardag svo við fengum góðan tíma til að rifja upp gamalt og gott, svo og segja nýjar fréttir. Hin komu síðan á  miðvikudaginn var. Á fimmtudagskvöldið héldum við hjónin inn til Alicante til að fara í leikhús. Fórum að sjá ballettinn Coppeliu. Það var auðvitað mjög flott. Búningar höfðu verið færðir til nútímanns og var mikið um palliettur og glimmer, að öðru leiti var verkið eins og ég hef séð það oft áður. Gabriel var að sjá ballett í fyrsta skipti (þ.e. life) og þótti honum þetta mjög skemmtilegt. Eftir sýninguna löbbuðum við um og skoðuðum í búðarglugga. Það eru SVO flottar verslanir í Alicante. Settumst síðan inn á þennan líka fallega veitingastað til að borða eitthvað smátt. Falleg stúlka, þráðbein í baki bar okkur matseðilinn og á hæla hennar kom vínþjónninn til að spyrja hvað við vildum drekka. Stór flaska af vatni (eins og alltaf) og gott rauðvín takk. Svo snérum við okkur að matseðlinum. Eftir úttekt á honum ákváðum við að fara í smárétti og pöntuðum 4 forrétti. Andalifur með lauksultu borin fram í kokteilglasi, grænmetissalat með marineruðum túnfisk, gratineraða hörpuskel og saltfiskbollur. Hver diskur listilega fram borinn og ekki var bragðið verra. Þetta var bara himneskt. Við tókum okkur góðan tíma í matinn að sönnum spænskum hætti, og svifum svo á bleiku skýji þaðan út. Gerum þetta fljótt aftur. Þ.e. leikhús og helst sami veitingastaður. Annars erum við mjög forvitin þegar kemur að veitingahúsum og reynum gjarnan að finna ný og spennandi.

Á föstudaginn veittist mér sá heiður að vera vitni (svarakona) brúður við vígslu í ráðhúsinu. Var vinkona okkar að gifta sig. Þegar við komum út eftir vígsluna voru vinir og samstarfsmenn fyrir utan og hentu rósarblöðum og hrísgrjónum yfir þau nýgiftu. Svo var haldið á bar þar sem skálað var í kampavíni og síðan snúið aftur til vinnu. Brúðkaupsveislan verður svo haldin í vikunni.

Kostningar eftir 3 vikur og flokkarnir í lokabaráttunni. Á föstudagskvöldið vorum við í boði hjá hægri mönnum í næsta bæjarfélagi. Þar er vinur Gabriels í framboði og fórum við honum til stuðnings. Komið hafði verið upp tjaldi á ströndinni og þar héldu menn og konur ræður sínar. Ekki þótti mér nú mikið til þess koma. Helsta “grín” sem þar fór fram, var að öllum karlmönnum sem töluðu, þá sérstaklega bæjarstjóra frambjóðandanum var mjög tíðrætt um Viagra, það sem maðurinn gat gert grín að því, hallærislegt. Ástæðan; vinstri menn sem eru þar við stjórn nú, bættu viagra á lista þeirra lyfja sem eru niðurgreidd. Gerðu þeir þetta til að létta lífið mönnum (og konum þeirra) sem vegna veikinda eða af öðrum ástæðum þurfa á lyfinu að halda. Mér þykir þetta gott skref og gef þessu fólki + fyrir. Síðan eftir ræðuhöld var boðið til veitingarstaðar við hliina þar sem bornir voru fram smáréttir og drykkir. Hittum fullt af fólki sem við þekkjum og hægri menn gáfu gestum sínum bláa vekjaraklukku með merki flokksins.

Í gær vorum við hinsvegar í hádegisverði hjá vinstri mönnum á Benidorm. Það var nú eitthvað annað!!! Var haldin á hóteli í miðbænum og hófst á barnum. Þar safnaðist fóks smátt og smátt saman, sötraði vín, bjór…og borðaði pinnamat með. Þegar svo borgarstjóra frambjóðandinn ásamt einum af ráðherrum ríkistjórnarinnar mættu var gengið í matsalinn. Þeir auðvitað síðastir, komu inn ásamt föruneyti undir bullandi tónlist og lófaklappi gesta. Allir á mælendaskrá héldu sínar ræður og baráttuhugur var mikill. Að því loknu hófst maturinn, svignandi hlaðborð af öllu því sem hugsast getur. Gjafirnar frá þeim var auðvitað rauð rós og mjög stílhrein stál digital klukka, í laginu svona eins og tímaglas skorið í tvennt eftir lengdinni. Á botninum stendur penni, festur með segul og er hann jafnframt hitamælir. Nafn foringjans fallega skrifað á fót listaverksins. Já, það er gaman að vera til þessa dagana.

Nú á sunnudagsmorgni er karlinn í kafi. Hann dró fram kafarabúninginn og allt tilheyrandi eldsnemma og ætlaði að kafa fram til kl. 13.00. Þetta er fyrsta köfun hans í vor og mun án efa verða fastur liður um helgar í sumar eins og önnur sumur. Ég nota tímann til að þrýfa, skrifa, lesa eða bara vera til. Þegar hann svo kemur úr kafi ætlar hann að elda Paellu og verður fjölskylda Guðjóns ásamt þeim sem vilja koma, t.d. strákunum mínum gestir okkar. Auðvitað verður bæði eldað og borðað á terrasinu. Það er sól og dillandi fuglasöngur fyrir utan.

Fært undir . 1 ummæli »