Úps, langt síðan síðast.

Ekki eins og maður hafi allan tíma í heiminum til að blogga. Eins og mér finnst það gaman, að ég tali nú ekki um hvað litla hjartað mitt hoppar þegar ég sé að einhver hefur kíkt á bloggið mitt. Ég er nefnilega með teljara.

Annars er allt hér lítð breytt, við kusum um sl. helgi og haldið ekki að hægri menn hafi sigrað/tapað. Þeir misstu 2 menn, en eru í meirihluta með 1 mann í borgarstjórn. Svo það er eins gott að þeir hagi sér vel næsta kjörtímabil. Þetta var bara hræðilega fúlt.

Í kostningunni í héraðsstjórn fyrir Valencia hérað sigruðu þeir örugglega, enda allir ánægðir með það sem þeir hafa verið að gera þar. Meir að segja ég. En á heildina litið þá stendur PP eða hægri menn upp úr eftir kostningarnar. 75% af landinu er blátt þegar skipuritin eru birt. Merkilegt hvað fólk er hrætt við að hleypa sósíal/jafnaðarmönnum að. En nóg um það.

Sólin skýn og hitastigið er um 30C. Sumarið komið. Mikið að gera í vinnunni og andinn góður. Við hjónin erum að fara til Murcia um helgina í afmælisveislu (ætlum að gista á hóteli), en áður en af því verður fer Gabriel til Murcia kl.06,00 í fyrramálið og kemur aftur í eftirmiðdaginn. Við förum svo á laugardagsmorgun. Hann kom frá Madrid um hádegi í dag eftir að hafa verið þar 3 daga og er þreyttur. Viljum komast heim eins fljótt og hægt er og ætlum að grilla og opna gott rauðvín, njóta svo þess að sitja á terrasinu og borða umdir stjörnubjörtum himni.

Júní kemur á morgun!!! Ups, hvað tíminn líður fljótt. Tara Kristín nálgast 1 árs afmælið sitt, 3. júlí og mér finnst hún ný fædd. En ég eldist ekkert…

Hafið gott kvöld og verið góð hvert við annað, (eins og Jónas segir).

Fært undir . 1 ummæli »

Stjórnmál og veður.

Ég ætlaði að vera búin að blogga oft þessa viku, en annir ofl. komið í veg fyrir það. Svo nú sit ég hér með tölvuna á hnjánum kl. 02.20. Ég er ekki svo löngu komin heim frá flugvellinum og innritun farþega á hótel, mörg hótel. Já, ég lét plata mig í einkennisbúninginn aftur, eitthvað sem ég var búin að segja að ég myndi ekki gera. OG vitið hvað…ég veit ekki hvað ég fæ fyrir. Samstarfsmaður minn til margra ára fór í frí og bað mig að vinna fyrir sig, ég sagði já, en datt ekki í hug að spyrja hvað ég fengi greitt fyrir. Svo nú er sjálfboðaliði hlaupandi um allt í og veit ekki nema það sé sjálfboðavinna. Nei, ég segi bara svona, auðvitað fæ ég laun, ég bara veit ekki hver þau verða. Þetta heitir að láta taka sig í…

En yfirskriftin er stjórnmál og veður. Ég er yfir mig ánægð með að mínar konur eru komnar í ríkisstjórn, kom mér reyndar á óvart að þær ættu samleið með Sjálfstæðisflokknum, en ég er svo löngu flutt í burtu að ég veit ekkert. Er ég þó í nánu sambandi við margar þeirra, m.a. einn af nýju ráðherrunum. En svona er pólitíkin. Ég tók stöðuprófið sem nemendur á Bifröst gerðu fyrir kostningarnar og hvað!!!!!!Jú ég er Framsóknarkona!!! Gabriel (hægri maður) tók það líka og fann út að hann er Samfylkingarmaður. Hann er búin að lofa sósiallistum atkvæði sínu nú á laugardaginn í borgarstjórnarkostningunum hér. Hafði þó ekkert með Bifrastar prófið að gera.

Það er mikill spenningur fyrir kostningarnar á laugardaginn. Síðasta könnun segir að hægri fái 16 manns í borgarstjórn á Benidorm og vinstri fái 16, jafnara getur það ekki verið. Annars er ég róleg, auðvitað vinna vinstri. Borgarstjórinn hér er tannlæknir sem rekur stofu. Hvað ef Davíð hefði verið starfandi lögfræðingur meðan hann var borgarstjóri? Einhver hefði sagt að borgarstjórastarf væri fullt starf. Svo sést þessi blessaði maður aldrei á kaffihúsum og tapasstöðum, “minglar” ekki við borgarana eins og vinstri maðurinn sem alltaf er tilbúin að hlusta á alla í bænum og drekka kaffi með þeim.

Veðrið hér hefur verið undarlegt. Á meðan stormur og ofsa rigning hefur gengið yfir Spán höfum við hér ekki orðið vör við neitt. Sól og hiti. Við bara horfum á fréttir og sjáum vatnsdýpt í húsum og á götum upp á 1 1/2 metir. En við erum þó ekki utangátta því lestarteinar á milli bæjanna hér fóru í sundur vegna vatnselgs. Vatnið frá t.d. Madrid leitar í Miðjarðarhafið og allar ár hér eru líflegar svo ekki sé meira sagt. Fleiri þúsundir manna komust ekki leiða sinna vegna þess að í yfir 24 tíma rann engin lest héðan. Já, veðrið í heiminum er að breytast.

Nú er klukkan að verða 03.00 svo ég held ég skríði í rúmmið, þarf jú að vera frísk og flott í viðtalstímum á hótelunum á morgun. Farastjórinn í sjálfboðavinnu bíður góða nótt.

Fært undir . Engin ummæli »

Göngugarpur

Jæja, þá er ég farin að ganga til og frá vinnu, og er ekkert smá ánægð með sjálfa mig. Fyrst á morgnanna trítla ég niður 326 tröppur og er þá komin á ströndina, þá tekur við yndisleg ganga eftir ströndinni. Þar eru margir á ferli snemma morguns, sumir að skokka, en flestir eru á göngu eða sitja á bekkjum og njóta lífsins. Enn eru þó hópar hér og hvar í sandinum við leikfimisæfingar, það fer þó að hverfa, bæði vegna þess að hitinn er orðinn það mikill á morgnanna og svo eru eldriborgarar sem hér eyða vetrunum farnir að tínast heim.

Dagurinn líður svo við mismikla hreyfingu. Suma daga, eins og í dag, er ég á hlaupum um bæinn í ýmsum erindum en aðra daga sit ég á skrifstofunni. Síðan tekur við sama prógram og á morgnann. Geng hressilega eftir ströndinni heim og klifra svo þessar 326 tröppur upp fjallið. Ég er nú ekki eins spræk þá eins og á morgnanna, en sjálfsánægjan er mikil þegar ég er komin upp. Í gær borðuðum við í hádeginu á ströndinni með skemmtilegum hóp og ég fékk Gabriel til að ganga fram og til baka.

Ég ætla að skella mér til Osló í júlí til að hitta Uglurnar vinkonur mínar. Við ætlum að safnast þar saman til að halda upp á 20 ára vináttu okkar. Hlökkum allar mikið til, enda mikið á dagskránni. Lovísa sér um að gera þá dagskrá. Við munum stoppa mislengi en ég verð 5 daga.

Nú er komið að göngunni heim, svo ég kveð í bili.

Fært undir . 1 ummæli »

Sunnudagskvöld

Við vorum að koma heim frá Madrid. Áttum þar frábæra helgi með vinum. Ansi þreytt…fórum á meiriháttar veitingastað í gærkvöldi þar sem ungir óperusöngvarar klæddir sem þjónar sungu aríur úr óperum. Maturinn frábær og vínið ekki síðra. En fékk heldur of mikið, svo þreytan er meiri en ella. Vorum á þeytingi alla helgina þar sem vinir okkar höfðu ekki komið til Madrid áður og mér hafði verið falið að skipuleggja ferðina. Allt var bara frábært, matur, menning, veðrið og ekki skemmdi félagsskapurinn.

Ég hafði ætlað að blogga um eitthvað svo skemmtilegt sem gerðist fyrir helgi en hafði ekki tíma, og auðvitað er ég búin að gleyma því núna. En það kemur til baka og ég skelli því á bloggið.

Nú ætla ég á vit draumanna.

Góða nótt. 

Fært undir . 1 ummæli »

Veislur hjá hægri og vinstri og karlinn í kafi.

Þá er ég mætt við splunku nýju töllvuna mína. Binni minn búin að færa öll gögn úr hinni og ég tilbúin í slaginn. Þ.e. að læra alminnilega á þessa.

Undanfarin vika hefur verið annasöm á öllum sviðum. Tengdamma, þ.e. mamma Guðjóns, bróðir hans og mágkona eru hér og höfum við gert skemmtilega hluti saman. Obba “svilkona” kom á undan hinum, kom sl. laugardag svo við fengum góðan tíma til að rifja upp gamalt og gott, svo og segja nýjar fréttir. Hin komu síðan á  miðvikudaginn var. Á fimmtudagskvöldið héldum við hjónin inn til Alicante til að fara í leikhús. Fórum að sjá ballettinn Coppeliu. Það var auðvitað mjög flott. Búningar höfðu verið færðir til nútímanns og var mikið um palliettur og glimmer, að öðru leiti var verkið eins og ég hef séð það oft áður. Gabriel var að sjá ballett í fyrsta skipti (þ.e. life) og þótti honum þetta mjög skemmtilegt. Eftir sýninguna löbbuðum við um og skoðuðum í búðarglugga. Það eru SVO flottar verslanir í Alicante. Settumst síðan inn á þennan líka fallega veitingastað til að borða eitthvað smátt. Falleg stúlka, þráðbein í baki bar okkur matseðilinn og á hæla hennar kom vínþjónninn til að spyrja hvað við vildum drekka. Stór flaska af vatni (eins og alltaf) og gott rauðvín takk. Svo snérum við okkur að matseðlinum. Eftir úttekt á honum ákváðum við að fara í smárétti og pöntuðum 4 forrétti. Andalifur með lauksultu borin fram í kokteilglasi, grænmetissalat með marineruðum túnfisk, gratineraða hörpuskel og saltfiskbollur. Hver diskur listilega fram borinn og ekki var bragðið verra. Þetta var bara himneskt. Við tókum okkur góðan tíma í matinn að sönnum spænskum hætti, og svifum svo á bleiku skýji þaðan út. Gerum þetta fljótt aftur. Þ.e. leikhús og helst sami veitingastaður. Annars erum við mjög forvitin þegar kemur að veitingahúsum og reynum gjarnan að finna ný og spennandi.

Á föstudaginn veittist mér sá heiður að vera vitni (svarakona) brúður við vígslu í ráðhúsinu. Var vinkona okkar að gifta sig. Þegar við komum út eftir vígsluna voru vinir og samstarfsmenn fyrir utan og hentu rósarblöðum og hrísgrjónum yfir þau nýgiftu. Svo var haldið á bar þar sem skálað var í kampavíni og síðan snúið aftur til vinnu. Brúðkaupsveislan verður svo haldin í vikunni.

Kostningar eftir 3 vikur og flokkarnir í lokabaráttunni. Á föstudagskvöldið vorum við í boði hjá hægri mönnum í næsta bæjarfélagi. Þar er vinur Gabriels í framboði og fórum við honum til stuðnings. Komið hafði verið upp tjaldi á ströndinni og þar héldu menn og konur ræður sínar. Ekki þótti mér nú mikið til þess koma. Helsta “grín” sem þar fór fram, var að öllum karlmönnum sem töluðu, þá sérstaklega bæjarstjóra frambjóðandanum var mjög tíðrætt um Viagra, það sem maðurinn gat gert grín að því, hallærislegt. Ástæðan; vinstri menn sem eru þar við stjórn nú, bættu viagra á lista þeirra lyfja sem eru niðurgreidd. Gerðu þeir þetta til að létta lífið mönnum (og konum þeirra) sem vegna veikinda eða af öðrum ástæðum þurfa á lyfinu að halda. Mér þykir þetta gott skref og gef þessu fólki + fyrir. Síðan eftir ræðuhöld var boðið til veitingarstaðar við hliina þar sem bornir voru fram smáréttir og drykkir. Hittum fullt af fólki sem við þekkjum og hægri menn gáfu gestum sínum bláa vekjaraklukku með merki flokksins.

Í gær vorum við hinsvegar í hádegisverði hjá vinstri mönnum á Benidorm. Það var nú eitthvað annað!!! Var haldin á hóteli í miðbænum og hófst á barnum. Þar safnaðist fóks smátt og smátt saman, sötraði vín, bjór…og borðaði pinnamat með. Þegar svo borgarstjóra frambjóðandinn ásamt einum af ráðherrum ríkistjórnarinnar mættu var gengið í matsalinn. Þeir auðvitað síðastir, komu inn ásamt föruneyti undir bullandi tónlist og lófaklappi gesta. Allir á mælendaskrá héldu sínar ræður og baráttuhugur var mikill. Að því loknu hófst maturinn, svignandi hlaðborð af öllu því sem hugsast getur. Gjafirnar frá þeim var auðvitað rauð rós og mjög stílhrein stál digital klukka, í laginu svona eins og tímaglas skorið í tvennt eftir lengdinni. Á botninum stendur penni, festur með segul og er hann jafnframt hitamælir. Nafn foringjans fallega skrifað á fót listaverksins. Já, það er gaman að vera til þessa dagana.

Nú á sunnudagsmorgni er karlinn í kafi. Hann dró fram kafarabúninginn og allt tilheyrandi eldsnemma og ætlaði að kafa fram til kl. 13.00. Þetta er fyrsta köfun hans í vor og mun án efa verða fastur liður um helgar í sumar eins og önnur sumur. Ég nota tímann til að þrýfa, skrifa, lesa eða bara vera til. Þegar hann svo kemur úr kafi ætlar hann að elda Paellu og verður fjölskylda Guðjóns ásamt þeim sem vilja koma, t.d. strákunum mínum gestir okkar. Auðvitað verður bæði eldað og borðað á terrasinu. Það er sól og dillandi fuglasöngur fyrir utan.

Fært undir . 1 ummæli »