Spanjólan komin aftur.

Góðan daginn! Þá er ég farin að blogga aftur og komin tími til finnst mér. Ég veit ekki um ykkur hin, en mér finnst tími til komin. Vorið komið á Benidorm og sumarið á Íslandi. Gleðilegt sumar!!! Spánverjum finnst alltaf jafn fyndið þegar við segjum að sumardagurinn fyristi sé í apríl á Íslandi. Hér er hann í júní, fyrsti vordagur er í apríl hér.

Veðrið hefur verið gott, mjög gott marga daga. Hitinn farið í 26C þegar mest var. Í dag er grár himinn og hitinn undir 20C. Ég ætlaði nú að verða brún um helgina en spáin er ekki hagstæð, þó veit maður aldrei.

Margt hefur gerst frá síðasta bloggi eins og gengur, verra ef ekkert gerðist:) Ég fór ekki í brúðkaupið í Baskalandi sem ég hafði hlakkað til að fara í. Aðstæður í vinnunni voru þannig að við gátum ekki farið frá nema yfir helgina og ég nennti ekki að keyra þvert yfir landið á föstudagskvöldi og til baka á sunnudegi, svo Gabriel fór einn. Hann skemmti sér mjög vel með fjölskyldumeðlimum sem hann hafði ekki séð lengi. Hins vegar bættum við okkur þetta upp og fórum í helgarferð á lúxus hótel hér í næsta nágreni. Það var yndislegt.  

Við hér í fjölskyldunni erum búin að kjósa. Ég veit nú ekki hvað karlpeningurinn gerði, reyndi auðvitað að hafa áhrif á Binna en veit ekki hvort það tókst. Sjálf gaf ég nú vinum mínum í Samfylkingunni atkvæði mitt, ekki endilega að það væri óskalistinn en að vel hugsuðu máli komst ég að því að þeir eru skárstir. Annars var það nú bráðfyndið að kjósa því á skrifstofu konsúl hér á Benidorm voru jú atkvæðaseðlar og umslög en engar upplýsingar um flokka, bókstafi þeirra né kjördæmaskiptingu. Ég varð að hringja til Íslands til að fullvissa mig um bókstaf Samfylkingunnar og fá upplýsingar um hina flokkana svo og hvaða kjördæmi ég tilheyrði, en það fer eftir síðasta lögheimili einstaklingsins á Íslandi. Frekar lélega að málum staðið og sendum við kvörtun til Utanríkisráðuneytisins. Síðan sendum við atkvæðin okkar í ábyrgðarpósti til Íslands eins og skylda er.   

Ömmustrtákurinn Óskar Marinó varð 3ja ára s.l. gamlársdag og ákváðum við, afarnir og ég að gefa honum hjól í afmælisgjöf. Hann var svo að kaupa það í s.l. viku og er mér sagt að það hafi verið mikill athöfn, það að fara í búðina, skoða, máta og velja lit. Nú er minn hjólandi alla daga. Við bíðum eftir myndum af drengnum á hjólinu nýja.

Ég sagði ykkur frá nautaatinu sem var hér um páskana og fallega, fræga nautabananum. Man að ég sagði að í þetta sinn vonaði ég að nautið tapaði, ólíkt mér! en hvað gerðist? haldið ekki að nautið hafi náð að stanga hann. Sem betur fer slasaðist hann ekki illa, fékk skurð á læri. Annars er alveg sama hvernig nautaöt ganga fyrir sig, veslings nautin eru alltaf dauðadæmd um leið og þau fara inn í hringinn. Það hefur aldrei gerst og mun aldrei gerast að dýr komist lifandi þaðan út.

Nú ætla ég að snúa mér að vinnu, en stefni í að vera duglegri að blogga.

Hafið góða helgi.

Fært undir . 1 ummæli »