Spanjólan komin aftur.

Góðan daginn! Þá er ég farin að blogga aftur og komin tími til finnst mér. Ég veit ekki um ykkur hin, en mér finnst tími til komin. Vorið komið á Benidorm og sumarið á Íslandi. Gleðilegt sumar!!! Spánverjum finnst alltaf jafn fyndið þegar við segjum að sumardagurinn fyristi sé í apríl á Íslandi. Hér er hann í júní, fyrsti vordagur er í apríl hér.

Veðrið hefur verið gott, mjög gott marga daga. Hitinn farið í 26C þegar mest var. Í dag er grár himinn og hitinn undir 20C. Ég ætlaði nú að verða brún um helgina en spáin er ekki hagstæð, þó veit maður aldrei.

Margt hefur gerst frá síðasta bloggi eins og gengur, verra ef ekkert gerðist:) Ég fór ekki í brúðkaupið í Baskalandi sem ég hafði hlakkað til að fara í. Aðstæður í vinnunni voru þannig að við gátum ekki farið frá nema yfir helgina og ég nennti ekki að keyra þvert yfir landið á föstudagskvöldi og til baka á sunnudegi, svo Gabriel fór einn. Hann skemmti sér mjög vel með fjölskyldumeðlimum sem hann hafði ekki séð lengi. Hins vegar bættum við okkur þetta upp og fórum í helgarferð á lúxus hótel hér í næsta nágreni. Það var yndislegt.  

Við hér í fjölskyldunni erum búin að kjósa. Ég veit nú ekki hvað karlpeningurinn gerði, reyndi auðvitað að hafa áhrif á Binna en veit ekki hvort það tókst. Sjálf gaf ég nú vinum mínum í Samfylkingunni atkvæði mitt, ekki endilega að það væri óskalistinn en að vel hugsuðu máli komst ég að því að þeir eru skárstir. Annars var það nú bráðfyndið að kjósa því á skrifstofu konsúl hér á Benidorm voru jú atkvæðaseðlar og umslög en engar upplýsingar um flokka, bókstafi þeirra né kjördæmaskiptingu. Ég varð að hringja til Íslands til að fullvissa mig um bókstaf Samfylkingunnar og fá upplýsingar um hina flokkana svo og hvaða kjördæmi ég tilheyrði, en það fer eftir síðasta lögheimili einstaklingsins á Íslandi. Frekar lélega að málum staðið og sendum við kvörtun til Utanríkisráðuneytisins. Síðan sendum við atkvæðin okkar í ábyrgðarpósti til Íslands eins og skylda er.   

Ömmustrtákurinn Óskar Marinó varð 3ja ára s.l. gamlársdag og ákváðum við, afarnir og ég að gefa honum hjól í afmælisgjöf. Hann var svo að kaupa það í s.l. viku og er mér sagt að það hafi verið mikill athöfn, það að fara í búðina, skoða, máta og velja lit. Nú er minn hjólandi alla daga. Við bíðum eftir myndum af drengnum á hjólinu nýja.

Ég sagði ykkur frá nautaatinu sem var hér um páskana og fallega, fræga nautabananum. Man að ég sagði að í þetta sinn vonaði ég að nautið tapaði, ólíkt mér! en hvað gerðist? haldið ekki að nautið hafi náð að stanga hann. Sem betur fer slasaðist hann ekki illa, fékk skurð á læri. Annars er alveg sama hvernig nautaöt ganga fyrir sig, veslings nautin eru alltaf dauðadæmd um leið og þau fara inn í hringinn. Það hefur aldrei gerst og mun aldrei gerast að dýr komist lifandi þaðan út.

Nú ætla ég að snúa mér að vinnu, en stefni í að vera duglegri að blogga.

Hafið góða helgi.

Fært undir . 1 ummæli »

Seinna á skírdagsmorgun.

Nú er kl.11.30 og ég komin aftur á skrifstofuna. Fórí bankann og búðir eftir morgunkaffið og ég fór gangandi. Undirbúin fyrir rigningu í úlpu. Kom til baka í svitabaði því sólin hellir geislum sínum yfir okkur. Þó það sé skírdagur er allt opið, opinberar skrifstofur sem annað. Þó er mun rólegra yfir öllu heldur en á venjulegum degi, nema auðvitað matvöruverslunum, þar er fjör. Ég gekk í gegnum farðinn fallega sem liggur upp frá ráðhúsinu í úlpunni með skjalatöskuna og tvo þunga poka í hvorri hendi. Fullt af fólki með eða án barna í garðinum, enda er hann unaðsreitur. Bílar með hljóðnema keyra um göturnar til og reyna að æsa okkur öll upp í að mæta á nautaatið á morgun. Þeir hafa hærra en venjulega því það er ekki á hverju sumri að nautabani úr frægustu nautabana fjölskyldu Spánar sést hér, að ég tali nú ekki um þann sem hér verður á morgun. Hann er sem sagt frægastur af þrem bræðrum sem koma úr frægum nautabana fjölskyldum í báðar ættir. Svo var hann giftur greifynju frá Malaga og á með henni dóttur en þau skildu. Nú er hann með náfrænku fyrri konunar en sú hefur ekki jafn háan titil, en best að halda sig innan sömu fjölskyldu. Öll slúðurblöð á Spáni hafa sérstakt dálæti á drengnum og því sem hann tekur sér fyrir hendur, og trúlega er þessi mikli áhugi til komin því hann segir aldrei mikið og hvílir því leynd yfir ástarmálum hans, samskiptum við fyrri konuna ofl. En hann er örugglega fallegasti maður sem gengur á jörðinni. Ég er búin að fá plagatið sem auglýsir morgundaginn, þar er auðvitað mynd af honum, en ég ætla ekki að hengja það upp í svefnherberginu heldur fer það til Íslands til vinar míns sem er að skrifa bók þar sem nautaöt koma m.a. við sögu. Hafið þið nokkurn tíma hugsað út í það hvað allir nautabanar virðast vera fallegir menn? Það er bara ótrúlegt. 

Þetta er í eina skiptið sem ég vona að nautið tapi, annars óska ég þeim alltaf sigurs.

Fært undir Blogg. 1 ummæli »

Skírdagur

Skírdagsmorgunn, sólin skýn en það er búið að spá rigningu. Fólk hefur verið að flykkjast í páskafrí. Sl.sólarhring hafa 48 manns dáið í bílslysum og er það heldur færra en á sama degi í fyrra en þá dóu 56. Um síðustu helgi, Pálmasunnudags helgina dóu 69.Þetta eru svo skelfilegar tölur að maður skilur ekki hvernig þetta er hægt. Hraðakstur og meiri hraðakstur, svo hjálpar aldrei til ef rignir.

Ég er að ath. með hótelgistingar í Madrid, við erum að fara þangað í langa helgi hjónin með enskum vinum okkar, í maí. Þá ætlumvið m.a. að borða á Íslenskum veitingastað sem er komin í hóp þeirra bestu í höfuðborginni. Staðurinn er í eigu Íslendings en kokkurinn er spænskur. En áður en af þessari ferð verður förum við í brúðkaup í Zumarraga sem er í Baskalandi. Það er nú bara um næstu helgi, förum þann 13.april (8 tíma keyrsla) brúðkaupið þann 14. svo erum við að hugsa um að taka 3 daga þar á eftir og fara til Sansebastian. Það er svo fallegt í Baskalandi og þó við séum búin að sjá góðan hluta af því þá er mikið eftir. Og maturinn þar fyrir norðan!!!!! 

Annars er það bara vinna og vinna, þatta er alltaf stór helgi hjá okkur Páskarnir. Benidorm full af Spánverjum í fríi. Það er mjög góð verkaskipting í fyrirtækinu þannig að allir fá eitthvað frí. Í dag Skírdag erum við með skrifstofuna opna og það eru líka bankar og verslanir, en þetta er samt öðruvísi dagur.

Nú ætlum við í kaffi.

Gleðilega páska.

Fært undir Blogg. Engin ummæli »

Sól og sumar.

Jæja, þá erum við búin að hafa sumarveður í tvo heita sólríka daga. Á sunnudaginn var borðuðum við Gabriel á ströndinni í góðu veðri en ekki í líkingu við það sem nú er. Svo páskarnir eru planaðir í sólbað og smá vinnu.

Ég átti mjög góðan tíma á Íslandi. Var hjá Gumma og fjölskyldu nokkra daga, í Stykkishólmi hjá Daníel og fjölsk. einnig í nokkra daga, að öðru leiti gisti ég hjá mömmu. Eina helgi fór ég ásamt uglum (hressum vinkonum,ekki fuglum) í Ölvusborgir. Þar áttum við stórkostlega helgi, gengum í fjallinu ofan við bústaðina og til Hveragerðis, borðuðum og drukkum vel. Að svo ógleymdri árshátíð okkar sem við héldum á laugardagskvöldinu. Það var sko alvöru árshátíð, uglur klæddar í jólafötin og eftir að hafa borðað margréttaða máltíð var dansað fram eftir nóttu. Héldum svo þreyttar til höfuðborgarinnar eftir hádegi á sunnudeginum.

Ég hitti líka mikið af vinum sem marga hverja ég hef ekki hitt lengi. Veisluhöldin voru mikil, fyrst skírnarveisla hjá Valtýr frænda mínum svo fermingarveisla hjá Siggu systir. Hjörleifur yngsta systkynabarn mitt var fermdur og haldin ver vegleg veisla.

Mér þótti stórkostlegt að vera í Stykkishólmi þó ég hafi verið veik meðan ég var þar, komst þó út að ganga með Siggu Rúnu og Töru Kristínu einn stórkostlega fallegan dag, nýfallinn snjór og blanka logn. Það er svo fallegt í Hólminum og útsýnið úr stofunni hjá krökkunum er slíkt að maður getur setið við gluggan allan daginn og látið sig dreyma.

Það eina sem ég get kvartað yfir er veðrið, en hver er hissa á því. Ég bara skil ekki hvernig þið getið búið við þetta. Og þó! Alltaf kemur maður með aukna orku eftir að hafa farið út á land og komis í beina snertingu við náttúruna.

Nú er ég að aðstoða 7 manna hóp Spánverja sem eru að fara til Íslands í júní og hlakka mikið til. Mjög skemmtilegt verkefni.

Farin í kaffi. 

Fært undir Blogg. Engin ummæli »