Baðviktin skrökvar.

Baðviktin mín segir ósatt, já lýgur!!! Hún leifði sér að segja mér í morgun að megrunin sé ekki að bera árangur. Og ég sem stend mig svo vel, borðaði bara tvisvar úti í gær. Langloku í hádeginu (ekkert mayones) og síðan fór ég með enskri vinkonu minni út í gærkveldi. Hana langaði svo í Paellu og ég auðvitað lét það eftir henni þar sem hún er nú bara í stuttri heimsókn. Annars er paella eitthvað sem maður borðar í hádeginu, hún er “sunnudagssteikin”, svo fer fólk í siestu eftir máltíðina. Alla vega…ég ætla að henda viktinni. Ef eitthvert ykkar hefur hugsað sér að bjóða mér í mat þegar ég kem þá má bara bjóða upp á salat og ávexti, ekki gleyma því. Horfið á björtu hliðina á þessu, engar yfirlegur yfir matreiðslubókum í leit að girnilegum grænmetisréttum.

Ég ætti að liggja í sólbaði núna í stað þess að sitja við tölvuna. Það er mjög hlýtt og glampandi sól. Ég er búin að tína tómata og hlúa að blómunum og trjánum, líka búin að koma túlipönum fyrir í tveim blómavösum, vinkonan gaf mér tvö búnt af sitt hvorum lit í gærkvöldi og nú er búið að koma þeim fallega fyrir, í holinu og stofunni. Nei, þeir voru ekki vatnslausir í nótt, Gabriel tók þá heim í gær og setti í könnu fulla af vatni.

Hann gerði meira en það, fór til grænmetis og ávaxtasalans og keypti ýmislegt, m.a. kassa af stórum jarðaberjum, svo nú ilmar húsið af þessum dásamlegu jarðaberjum. 

Eftir að ég fór að vinna fulla vinnu hjá Espis hef ég haft lítin sem engan tíma til að lesa mbl.is þaðan af síður bloggið svo ýmislegt hefur farið fram hjá mér. Í morgun bætti ég um betur og lagðist yfir síðuna svo og óteljandi blogg. Mikið er áhugavert að fylgjast með umræðunni um klámráðstefnuna sem nú hefur verið rekin úr landi. Ekki er nú öll málafærsla jafn málefnaleg og sumt hreint bull, en fólki er víst frjálst að tjá sig. Ekki ætla ég að setja mig í dómarasæti í þessu máli, en hef þó á tilfinningunni að Íslendingar ættu að taka dálítið betur til í næsta nágreni áður en þeir vísa fólki á frá. Hvað með súlustaðina? Það fer auðvitað ekkert klám né önnur lögbrot fram á þeim. Eða sorpritin sem voru meir að segja til í búðum þegar ég var ung, þar finnst örugglega ekert klám eða niðurlæging á konum. Annars hefði verið fróðlegt að sjá hvað yfirvöld hefðu gert í þessu máli hefðu bændasamtökin ekki tekið af skarið og úthýst hópnum af Sögu.       Hreina, fagra Ísland.

Gabriel var að hringja og segja mér að við séum boðin í mat á veitingastað, eigandinn býður. Svo nú er að fara úr stuttbuxunum í eitthvað huggulegra og labba af stað. Hvernig á maður að geta verið í megrun???

Kem eftir 5 daga. 

Fært undir Blogg. 1 ummæli »