Óvæntar fréttir

Við hjónin vorum að koma heim frá því að hafa komið við á veitingastað í Albir til að fá okkur matarbita og fara yfir dagskrá Gabriels næstu daga því hann fer á morgun til Madrid á ferðakaupstefnu sem hann/við höfum sótt sl.ár. Hann fer einn í þetta sinn af ýmsum ástæðum og er ég sátt við það, þó Madrid sé mín uppáhaldsborg og kaupstefna þessi mjög skemmtileg. Gabriel fer þangað fyrir hönd okkar fyrirtækis, en þó aðallega sem varaforseti Aptur sem eru samtök fyrirtækja í ibúðarleigu fyrir ferðamenn á Benidorm. Þegar við komum heim og ég setti mig í stellingar til að blogga um pólitík á Íslandi biðu okkar óvæntar fréttir.

Aðalbjörg og Haukur vinir okkar sem ráku hér Kaffi Reykjavík eignuðust dreng um daginn og hann hefur nú verið skírður Gabriel í höfuðið á mínum Gabriel!!! Það er mikil gleði í húsinu og tár runnu niður vanga. Það er mikill heiður að barn fái nafn sérstakrar persónu, ekki hægt að lýsa tilfinningunni sem heltekur mann við fréttirnar. Gabriel verður án efa nafna sínum góð fyrirmynd og mun gefa honum ást og gleði eins og hann er frægur fyrir meðal barna.

Talandi um nafnagift.

Þegar ég var barn/unglingur og las Pilt og stúlku, Mann og konu og Önnu í Stóruhlíð ásamt  öðrum góðum bókmenntum, þótti mér ákaflega lítið til nafnsins Kristín koma, sama gilti um Sigríður. Bæði þessi nöfn báru mjaltarkonur og aðrar slíkar vinnukonur. Ein og ein “maddama” bar gæfu til að bera þessi nöfn. Á tímabili leiddist mér nafn mitt svo að ég bjó mér til gælunöfn sem ekki lifðu, og ég nefni ekki hér. Síðar tók ég nafn mitt í fullkomna sátt, sérstaklega eftir að ég uppgötvaði að langamma mín sem ég var skírð í höfuðið á, átti sama afmælisdag og ég.  Svo upplifði ég hið ótrúlega, Dóra vinkona mín í gegnum nuddnám og sambýli á Englandi eignaðist sitt fyrsta barn,stúlku. Þetta var árið 2000, hún sendi mér e-mail og sagði mér að prinsessan ætti að heita Edda Kristín, eftir móðursystur sinni og mér. Tilfinningin var ótrúleg,mig langaði að hlaupa út og hrópa tíðindin út yfir heiminn.

Síðan eignast ég fyrstu sonar dótturina 3.júlí s.l. og hún fékk nafnið Tara Kristín Bergmann. Það er bara ekki hægt að lýsa þessari tilfinningu. Og það sem meira er,móðir Siggu Rúnu  hans Daníels, heitir Kristín að seinna nafni svo þetta tengir okkur enn nær sem vinkonur.

Fleiri barnsfæðingar.

Þórður bróðir minn og Kristín mágkona hafa eignast tvö barnabörn á hálfu ári og það þriðja væntanlegt í lok febrúar. Fyrst kom drengur Andri Þór, síðan daman Dúa Kristín sem ber nafn beggja ömmu sinna.

Svo niðurstaðan er sú að nafnið Kristín er sígilt, falleg og hverri snót heiður að bera.

Skrif um stjórnmál verða að bíða. Og vonandi fá ég viðbrögð við þeim,

Takk öllum sem heimsótt hafa bloggið þó þið hafið ekki öll kvitað fyrir.

Góða nótt 

Fært undir Blogg. Engin ummæli »