Þorláksmessa og allt á floti.

Við þurfum ekki að velta fyrir okkur hér hvort jólin verði hvít eða rauð, en nú er spurningin hvort þau verði blaut eða þurr og er ég þá ekki að tala um víndrykkju. Það byrjaði að rigna eins og helt væri úr fötu í nótt en stytti upp undir morgun og sólin skein glaðlega fram undir hádegi að himnarnir opnuðust aftur. Og nú kl. 18.10 þegar ég er nýkomin heim úr vinnu voru allar götur á floti. Fossar renna af miklum krafti niður brekkur og stöðuvötn hafa myndast á jafnsléttu. Ströndin sem er stolt okkar er nánast horfin. Þetta er annað rigningarkastið sem við fáum á tveim mánuðum og þykir mikið meir en nóg. Í gær var fyrsti vetrardagur á Spáni en það er hlýtt þótt það sé svona skelfilega blautt. En sólin á að vera komin á morgun segja veðurfræðingar, en er að marka þá???

Ég byrjaði að undirbúa matin fyrir Aðfangadagskvöld í morgun og var búin að gera þó nokkuð áður en ég þurfti að fara til vinnu. Við hjónin erum á vakt yfir jól og áramót og töluvert af fólki er að koma í gistingar hjá okkur. Svo við gerðum samning, ég vann í dag og hann sér um Jóladag, en þá er fólk bæði að fara og koma. Hvað við gerum um áramótin er óráðið, þ.e. vinnulega séð því þó nokkrir fara á Nýársdag. Annars ætlum við, Binni, Gaui, Guðjón eldri (sem verður komin heim frá Ungverjalandi) og ugluhjónin Lovísa og Dr. Ingimar að borða á Gamlárskvöld á japanska uppáhalds staðnum mínum rétt við skrifstofun á. Við ætlum að hafa með okkur kampavín og plast staup að ógleymdum vínberjum til að borða og skála á miðnætti á götum bæjarins. Þið vitið kanske öll að hér er það siður að borða eitt vínber+sopa af kampavíni við hvert klukkuslag á miðnætti og missi maður af slagi þýðir það að sá mánuður sem slagið stóð fyrir verður slæmur mánuður á árinu fyrir viðkomandi. Til að gera okkur þetta auðveldara hef ég keypt litlar niðursuðudósir með 12 vínlegnum, skinnlausum  vínberjum. Svo eftir að hafa borðað förum við á torgið sem er í miðjum bænum og bíðum klukknahljómsins, borðum okkar vínber og skálum ótæpilega, síðan hefst þessi líka stórkostlega flugeldasýning. Að henni lokinni höfum við ”gömlu” hjónin venjulega farið heim en unga fólkið á næturklúbbana. Ég á ekki von á neinni breytingu þetta árið, sérstaklega þar sem við þurfum að vinna á Nýársdag. 

Jæja elsku fjölskylda og vinir. Nú ætlum við að skreyta matarborðið fyrir morgundaginn, svo þá er bara að kveðja.

Kristín, Gabríel, Gaui og Binni senda öllum bestu jóla og nýársóskir.

Jólakortaskrif voru því miður ekki næginlega tímanlega í ár vegna ferðalaga og mikillar vinnu, en við bætum það upp síðar. 

Guð og jólabarnið vaki yfir ykkur öllum.

Ps. ég fékk annan vinning hjá Glitni í morgun!!!

Fært undir .

2 ummæli við “Þorláksmessa og allt á floti.”

  1. Dísa, Dóri, Birgir, Helena Ósk og Fanndís Ósk ritaði:

    Elsku Kristín og fjölskylda.

    Gleðileg jól og hafið það sem allra best. Við vöknuðum með hvíta jörð í morgun, ekki mikið en hvítt.

    Jólakveðjur frá Skeiðarvoginum

  2. Sjöfn og Jón ritaði:

    Sendum ykkur hjónum og fjölskyldu og Ugluhjónunum kærar nýjárskveðjur og passið ykkur að svelgjast ekki á vínberjunum í ákafanum. Gott Kristín að þú ert búin að láta afhýða þau. Sjöfn og co.