Fljótt skiptast veður í lofti.

Eftir óvenju heitt haust eða fyrri hluta vetrar skall kuldinn á okkur. Hér á Benidorm skýn sólin (reyndar ringdi sl. nótt) en á stórum hluta landsins hefur snjóað og snjóað. Í Alcoy, heimaborg Gabriels er ekkert óvenjulegt að snjói og það allt upp að og yfir 1 metri, enda stendur hún mjög hátt, en snjóað hefur nánast niður að ströndum sl. sólarhring. Börnin eru yfir sig kát en ökumenn síður. Okkur bregður hér í bæ við fallandi hitastig, komin með hanska og húfur…

71. konan á árinu var myrt í gær af fyrrum sambýlismanni sínum, hann er lögreglumaður aðeins 34 ára gamall. Hún átti 3 börn. Þessu virðist aldrei ætla að linna.

ESPIS var með jólamat fyrirtækisins í gærkvöldi. Við borðuðum í Altea, á veitingastað sem við höldum mikið upp á. Það var mikið fjör. Við höfum haft það að venju að nokkru fyrir jólamatinn set ég miða með nöfnum allra starfsmanna í skál og síðan dregur hver og einn nafn til að gefa litla jólagjöf á “litlu jólunum”. Ég fékk tvo rosa sæta, feita jólasveina. Þeir eru kerti en ég mun örugglega ekki brenna þá næstu árin.

Við auðvitað skildum bílinn eftir heima og fórum með leigubíl. Spánn er kominn í nútímann!!! Farið er að taka mjög hart á áfengi í blóði ökumanna, meir að segja má lögreglan núna stoppa bíla inn í bæjum, það mátti ekki áður, til að láta blása í þessi fínu tæki þeirra. Jólamánuðurinn er hér eins og víða annars staðar sá mánuður sem fólk drekkur meir en oftast. Í sl. viku hefur lögreglan m.a. verið að stoppa strætisvagna og rútur sem keyra börn til og frá skóla, og viti menn, mikið af bílstjórunum hafa verið töluvert yfir áfengis takmörkum. Svo nú er stóra spurningin í fréttum, Eru litlu skólabörnin í hættu? En vonandi er þetta herta eftirlit ástæða þess að 17 færri dóu í umferðarslysum um þessa helgi en um sömu helgi í fyrra. Það sem ég dáist að er að loks þegar farið var að taka á áfengi versus akstur þá er það gert með slíkum krafti að allir verða hræddir. Hafi menn brotið umferðarlögin áður geta þeir átt all að 6 ára fangelsi yfir höfði sér, og hér eru þetta ekki orðin tóm.

Að öðru leiti er allt við það sama, vegna anna helgi eftir helgi erum við ekki búin að skreyta allt húsið svo við ákváðum að á morgun vinn ég bara til hádegis, fer heim að baka og Gabriel hættir kl. 18.00 og gerir það sem tilheyrir hans deild. Eftir að búið verður að ganga frá getum við legið í leti fram í janúar. Annars finnst mér ótrúlegt að jólin séu eftir viku.

Nú fer ég í rúmmið. Góða nótt.

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.