Jólabylgjan og ótrúlegur hiti.

Ég er búin að ætla að blogga svooo lengi en ekkert orðið af. Bæði er að það hefur verið mikið að gera og svo er maður að njóta góða veðursins. Hér hefur verið yfir 20C og glampandi sól síðan við komum frá Stokholm. Fjallað var um Benidorm og hitann í fréttum um helgina, það var löng helgi, þ.e. frí á fimmtudaginn og margir nota slíkar helgar (brú) til að fara í frí. Og þar sem veðurblíðan var slík á Benidorm flykktust Spánverjar norðan frá hingað. Strendurnar voru fullar af fólki eins og um sumar og mjög margir böðuðu sig í sjónum.

Við Gabriel áttum mjög annasama helgi en gáfum okkur tíma til að labba yfir að ráðhúsinu (beint á móti skrifstofunni) á laugardaginn. Þar á ráðhústorginu er mjög stórt jólatré, sölubásar og skautasvell. Þetta er annað árið sem bæjaryfirvöld búa til skautasvell yfir veturinn, þar getur maður leigt skauta og leikið sér undir jólatónlist. Þarna er líka kaffihús og eins og veðrið hefur verið sitja allir úti og njóta þess að vera til. Ég verð að viðurkenna að þetta er ekki mjög jólalegt, en dásamlegt er það. Annars er auðvitað bærinn allur skreyttur svo og heimili fólks. Ég skreytti jólatréð í gærkvöldi en á eftir að klára aðrar skreytingar í húsinu. Vegna anna hefur Gabriel ekki komið jólaljósunum á terrasið, en það verður örugglega í vikunni.

Svo ætla ég að taka mér frídag til að baka…ó já, ég hef ekki bakað annað en brauð fyrir jólin í mörg ár en nú ætla ég að breyta til og koma Binna á óvart og baka uppáhaldið hans, Sörur. Ísana ætlaði ég að gera um helgina en það varð ekki úr vegna anna. Þessar miklu annir okkar um helgina stöfuðu af því að fjölskyldumeðlimir Gabriels frá Alcoy og næsta bæ komu hingað svo við vorum úti að borða bæði í hádegi og kvöldin frá föstudegi. Þó tókst okkur að kaupa ósamsettar kommóður í fataskápana, eitthvað sem staðið hefur til í 3 ár og meðan ég skreytti jólatráð setti Gabriel saman eina kommóðu. Það er heilmikið verk, þarf að líma og skrúfa. Svo gaman verður að taka skápana í gegn um næstu helgi og endur skipuleggja allt. 

Það sem heldur mér í jólaskapi er Jóla Bylgjan, dásamlgt að fá íslenska útvarpið í gegnum tölvuna. EN!!! Mikið er ég fegin að þurfa ekki að taka þátt í verslunarferðum og öðru sem virðist fylgja íslenskum jólum. Svo, allt hefur sinn sjarma, hér er ekki jólastress, nægur tími til að njóta lífsins, en Ísland hefur jólasnjóinn og hefðirnar sem eru svo skemmtilegar.

Nú ætla ég heim að skreyta meira.    

Fært undir .

3 ummæli við “Jólabylgjan og ótrúlegur hiti.”

 1. Ingvi frændi ritaði:

  góða kvöldið frænka,

  Alltaf gaman að lesa fréttir af ykkur hér, en þó ekki af veðrinu því hér er núna það mikil rigning að íbúðin er farin að leka hjá okkur.

  Heyrðu myndir þú vilja senda mér heimilisfangið hjá ykkur Gabríel til mín á tölvupósti? netfang: ibb@deloitte.is , ég er nebblega að fara að senda þér bréf.

 2. Þórey ritaði:

  Sörur eru æði. Ég er ekki alin upp við þær, en þegar ég fór að baka sjálf fyrir jólin, voru sörur það fyrsta sem ég gerði. Pínu föndur að gera þær, en alveg fullkomlega þess virði. Er einmitt að velta því fyrir mér núna hvenær ég ætti að baka mínar.

  Ég væri líka þvílíkt til í að vera þarna úti hjá ykkur núna í hitanum. Ekki snjókomu - rigningu - frosti og öllu hérna heima á íslandi….

 3. Nanna ritaði:

  Sælar frú Kristín
  Mikið er rosalega langt síðan ég hef heyrt í þér. Ég er búin að sökkva mér ofan í ævintýrin þín hérna á blogginu, gjörsamlega hugfangin. Ýmsar gamlar minningar sem koma upp í hugann.
  Ég er að byrja að upplifa jólastemninguna hérna heima, líður satt að segja eins og einum af jólasveinunum, nýsnúin til baka til mannabyggða…..var semsagt að klára prófin.
  Síðan þá er ég búin að vera að reyna að hafa upp á gömlum vinum og ættingjum til að athuga hvort þeir muni eftir mér. Vona að svo sé um þig!
  Ég hringi í þig fljótlega, vona að þið hafið það gott.
  Knús til allra.
  Bkv
  Nanna