Aftur heima.

Þá erum við komin heim. Komum í dag eftir stórkostlega ferð. Hér beið okkar sól og 22C, ekki laust við að við söknuðum vetursins í Stokholmi, þó vorum við mjög heppin með veður, tveir fyrstu dagarnir voru kaldir og síðan 3-4C, milt og ferskt. Dagurinn í gær, fyrsti sunnudagur í aðventu var hreint frábær. Við fórum ekki út fyrr en um hádegi og héldum sem leið lá í Gamla Stan þar sem aðventudagskrá átti að vera. Torgið var fullt af fólki og allir sölukofarnir (falleg jólahús úr tré sem standa í röðum) önnum kafnir. Byrjuðum á því að fá okkur glögg og piparkökur í einum þeirra og labba um. Gengum að höllinni þar sem lífvarðaskipting var að hefjast, slepptum því að horfa á þá marsera en fórum þess í stað í kirkjuna sem er mjög falleg og var búið að setja upp Betlehem. Vorum svo mætt aftur á Stóra torgið kl. 14.00 en þá var að hefjast söngvakeppni barna, hún er haldin árlega til styrktar “save the children”. Börnin stigu á stokk hvert af öðru og sungu jólalög, að lokum stóðu tvær ungar stúlkur uppi sem sigurvegarar og munu taka þátt í lokakeppni þann 22. des. en svona keppni er haldin alla sunnudaga í aðventu og líkur svo með því að sigurvegarar hvers sunnudags keppa í úrslitakeppninni. Gengið er með söfnunarbauka um torgið á meðan á söngnum stendur og setur maður glaður pening þar í. Gabriel hótaði góðlega að stinga mig af á meðan börnin sungu því hann hélt því fram að ég væri að fara að gráta, hvað er annað hægt en verða klökkur, ég bara spyr.

Við enduðum svo Stokholms dvölina með því að borða á rússneskum veitingastað sem við höfðum fundið nokkrum dögum áður en ekki haft tækifari til að heimsækja. Mér var mjög í mun að fara með hann þangað því meðan ég bjó í Stokholm fór ég nokkuð margar ferðir til Helsinki og borðaði þá alltaf á rússneskum stað og það hefur verið sterkt í minningunni síðan. Það var frábært. Í forrétt fengum við Blini og fylltar pönnukökur með paté og berjum, skiptum réttunum í tvennt svo bæði fengju að nóta. Síðan borðaði Gabriel bjarnarkjöt sem hann var mikið hrifin af og ég fékk mjög góðan fisk með sósu gerðri úr soði af reyktum fisk, skemmtileg og góð samsetning. Að lokum bar þjónninn Gabriel ískalt Vodka. Topp kvöld.

Gabriel var í alsherjar matarveislu alla ferðina, fékk tvisvar hreindýrakjöt, hjartarkjöt og björninn auk annars sem ekki var jafn framandi.

Köfunin á laugardaginn var víst mikið ævintýri og hann er ákveðin í því að við förum aftur í mars því þá langar hann að fara í köfun undir ís!!! Ætlar að fara að þjálfa sig hér í Miðjarðarhafinu til að vera vel undirbúin þegar hann mætir. Ekki það að Miðjarðarhafið frjósi, heldur er allt annars konar búningur notaður í köldu vatni og hann þarf að vera orðin algerlega vanur og vel fær í þeim búining áður en honum verður hleypt undir ís.

Ég átti hins vegar mjög góðan laugardag með sjálfri mér og við borðuðum á hótelinu um kvöldið.

Ég er búin að hengja upp ekta sænskan jólaóróa og ganga frá öllu úr töskunum, hvílík sæla.

Komin svefntími, góða nótt.

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.