Galakvöld.

Ég steingleymdi að blogga um galað í gær. Ekki get ég skotið mér á bak við timburmenn því þeir voru ekki í heimsókn hjá mér, heldur einfaldlega gleymdi ég bloggi og tölvunni í gær. Ég fór snemma á fætur, eins og alltaf, las reyndar póstinn minn og mbl.is meðan ég drakk teið mitt. Vinur Gabriels sem býr á Gran Canari kom hingað í gærmorgun með rútu frá Madrid. Hannn er að heimsækja fjölskyldu sína hér og kemur alltaf við hjá Gabriel. Svo G. fór ekkert að sofa galanóttina.

Hann stóð sig mjög vel í hlutverki sínu þar og var á þeytingi allt kvöldið. Flottur á því við sitt fólk eins og alltaf, en við vorum 10 gestirnir frá Espis. Fallega innpakkaðar rósir á stól hvers og eins þegar við komum og kampavín beið á borðinu. Ekki gátum við séð að aðrir hefðu hugsað svona vel um gesti sína því hvergi voru blóm að sjá. Hinsvegar voru poppkorns kassar á öllum borðum, fullir af poppi, kassarnir með myndum frá Benidorm, en þetta er þáttur í herferðinni sem APTUR (samtök skrifstofa í íbúðarleigum til ferðamanna) eru að byrja hér á Spáni. Gerð hefur verið auglýsing um Benidorm sem sýnd verður í 280 kvikmyndahúsum um allan Spán þar sem Benidorm er auglýst. Popp-kassarnir verða líka þáttur í herferðinni. Auglýsingin var frumsýnd á galakvöldinu og er mjög flott, einnig var sýnt “making of” auglýsingunni og var það mjög skemmtilegt, þar lék Gabriel augljóslega mjög stórt hlutverk. Ég bara hafði ekki gert mér grein fyrir allri þessari vinnu fyrr en ég sá þetta á tjaldinu.

Kvöldið heppnaðist í alla staði mjög vel, maturinn mikill og góður og skemmtiatriðin flott. Ég fór heim þegar þessu lauk en Gabriel og fleiri ákváðu að fara á píanóbar og slappa af eftir mikla vinnu undanfarið. Honum þótti heldur ekki taka því að fara að sofa þar sem vinurinn var að koma kl. 05.00. Einhver seinkun var á rútunni en G. sótti vininn og fór með hann í íbúðina sem hann mun búa í meðan hann stoppar hér, þar sátu þeir að spjalli þar til báðir duttu útaf. Ég hitti þá svo á veitingastað við ströndina í hádeginu í gær. Þar borðuðum við Paellu og fleira, nammi gott. Að því loknu fór ég heim en þeir ætluðu að njóta samveru hvors annars því stoppið verður stutt. Heima beið mín að pakka inn jólagjöfum og gera þær tilbúnar til Íslandsferðar.

Svo horfði ég á Bridget Jones, ekki bara aðra myndina heldur báðar.

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.