Súpa.

Síðan ég bloggaði í morgun er ég búin að vera úti að dunda við plönturnar mínar og hengja úr þvottavél. Það er svo rosalega heitt að svitinn bogar af manni. Ég ætla á bikini fljótlaga og í sólbað. Ég er líka búin að studara þetta fyrirbær blogg og læra að setja inn mynd af sjálfri mér, skelfileg mynd sem fór inn en mér tekst ekki að breyta, svo það er næsta skref í lærdómnum.

Birna Ben. vinkona mín er 50 ára í dag, hún heldur upp á afmælið í Orlando á Florida og sumar af vinkonunum og fjölskylda hennar eru þar til að samgleðjast henni. Ég er búin að heyra í henni (og Elísabetu) og það er mikið fjör.

En Minestrone súpan var ástæðan fyrir þessu bloggi. Mín súpa er komin úr ítalskri bók sem ég hef átt í fjölda mörg ár (áratugi,úps) og ég hef breytt og lagað að mínum dutlungum. Ég ber alltaf brauð (helst heimabakað) og mikið af mismunandi ostum með henni og svo er auðvitað gott rauðvín skilda. Súpan geymist mjög vel í ísskáp og verður betri við hverja upphitun. Ég ætla að reyna að halda mig við magn sem duga mundi 6 manns, en hver og einn finnur út fyrir sig. Súpupotturinn minn er 10 lítra.

Einn og hálfur laukur, eða tveir litlir. Stór púrrulaukur sneiddur, 4-5 stilkar af selleri sneiddir. Gulrætur í bitum, kartöflur í bitum, magnið fer eftir smekk, en 4-5 góðar kartöflur og 5-6 gulrætur er fínt. 1 kúrbítur skorin í sneiðar og þær síðan í tvent eða fernt (smekksatriði), franskar baunir (þessar löngu), kál í strimlum, ég nota salatkál. Stór dós niðursoðnir tómatar (má vera meira), tómatarnir skornir í bita og safinn notaður, dós tómatpurri, basil lauf (söxuð) oregano lauf eða þurrkað, svo nota ég alltaf fullan lófa af ítölsku pastakryddi frá Pottagöldrum, vatn, grænmetisteningar, kjúklingabaunir, ég nota niðursoðnar og skola þær vel, salt, pipar og hárfínt pasta eða hrísgrjón. Ég nota 250 gr. poka af pasta eða 1 bolla af hrísgrjónum. Olía til steikingar.

Ég byrja altaf á því að skera allt grænmetið, set laukinn, púrruna og selleri saman í skál og annað grænmeti í aðra. Hita olíuna og set lauk skálina út í, læt steikjast smástund þá blanda ég öllu grænmetinu út í nema kálinu, hræri það vel og læt allt blandast í nokkrar mínútur. Helli þá tómötunum og soðinu yfir svo og kálinu og 3-4 lítrum af soðnu vatni ásamt 2-3 grænmetisteningum og kryddinu. Læt sjóða hægt í 1 1/2 til 2 tíma. Smakka oft á tímanum og bæti vatni, kryddi og grænmetisteningum út í ef mér finnst þurfa. Síðast þegar ég gerði súpuna þá setti ég nokkra dropa af Tabasco og chiliduft í, ég var mjög lengi að fá rétta bragðið. Að þessum suðutíma loknum fara kjúklingabaunirnar og pastað út í og soðið ca. 10 mín. Súpan verður betri ef hún er látin standa með lokið á pottinum 15-20 mín. áður en hún er borin fram.  Sumum finnst nauðsynlegt að strá parmesan osti yfir, og endilega hafa stóra piparkvörn við hendina.

Buen provecho.

Fært undir Matur.

Ein ummæli við “Súpa.”

  1. Sigga Rúna ritaði:

    Nammi namm, hlakka til að prufa að gera þessa þegar kólnar enn meira úti… Frábært framlag hjá þér, takk takk
    Ég hefði ekkert á móti smá hita frá sólinni en held líka að hafi verið frost í nótt, því kl.7.45 í morgun gekk ég niður í sundlaug og það var hrím á götunum, og pínu sleipt….úffúfff þarf að finna mannbroddana fljótlega :-) knús á alla.