Veisluhöld.

Sunnudagsmorgun og ég er þreytt eftir mikil veisluhöld. Búin að lesa mbl.is og er að hlusta á bænir Ellen Kristjánsdóttur með tebolanaum. Vinkona okkar sem býr á Englandi en á hér stórt og mikið hús hélt upp á 60 ára afmæli sitt um helgina. Byrjaði á  fösudagskvöld með mat á heimili þeirra, maturinn, kokkar og þjónar komu frá einum besta veitingastað Albir. Allt var mjög glæsilegt eins og vinkonu okkar er einni lagið. Lifandi tónlist og dansað á sundlaugabakkanum (engin datt í laugina). Gestirnir sem flogið höfðu til Spánar frá ýmsum löndum, voru auðvitað allir í sínu fínasta pússi. Við hjónin völdum hvítt og blátt, ég var í hvítum kjól með hvítt sjal með bláum blómum og hvítum skóm, Gabriel hvítum buxum og bláum silki pólóbol. Frábært kvöld. En það var ekki búið því í gærkvöldi var svo seinni veislan, þá buðu gestgjafarnir í mat á frægan veitingastað sem er aðeins utan við bæinn. Við sátum úti á garði og var búið að skreyta mjög fallega í tilefni dagsins. Borðaskipan var mjög fagleg, nafnakort við hvern disk og raðað eins og í konunglegum veislum, konur höfðu borðherra. Matseðlinn hreint frábær, dóttir þeirra hjóna hafði hannað hann og voru forsíða og baksíða með myndum af afmælisbarninu á ýmsum aldri. Þar var meir að segja úrklippa úr dagblaði frá 1947 þar sem tilkynnt var fæðing barnsins, en það er gjarnan gert á Englandi. Maturinn var mjög góður svo og félagsskapurinn. Enn höfðu konur (og karlar) vandað sig við klæðnað og snyrtingu. Ég var í brúðarkjólnum!!! Þið sem voruð við brúðkaup okkar vitið að hann var ekki blúndukjóll, heldur fölgulur úr léttum hör og mjög fallegur. Upphaflega var hann ekki keyptur sem brúðarkjóll, heldur var hann afmælisgjöf frá sonum mínum og þar sem ég hafði aldrei notað hann þegar bónorðið var borið upp, ákvað ég að geyma hann og nota sem brúðarkjól. Veðrið var eins og best gat verið bæði kvöldin, mátulega heitt og tunglbjart.

Eina sem skyggði á hjá mér var að missa af leiknum milli Íslands og Spánar, en Gummi minn hringdi í hálfleik til að segja mér stöðuna, hann var á leiknum. Verst að hafa ekki unnið, en ég las í mbl.is að íslenska liðið hafi staðið sig mjög vel.

Ég ætla að nota daginn í dag til að slappa af, Gabriel sem notar hvert tækifæri sem gefst til köfunar fór snemma í morgun að leita hafmeyja. Hann hefur farið tvisvar undanfarið í næturköfun sem hann segir vera mjög stórkostlega. Fiskarnir sofa eins og önnur dýr, allt lífið neðansjávar mjög ólíkt því sem er á daginn. Hann m.a. strauk kolkrabba sem hreyfði sig ekki við þessa árás.

Valtýr bróðursonur minn kom hingað í gærkvöldi með fjölskyldu sína og verður gaman að hitta þau. Litla daman Dúa Kristín örugglega breyst heilmikið síðan ég sá hana í mars s.l. eins og börn gera á fyrsta ári.

Jæja, ég er farin í rúmmið með bók.

Gleymdi einu!

Ég var búin að lofa Antoníu tengdadótttur minni að setja uppskrift á bloggið. Það eru Kúbönsk hrísgrjón sem hún vildi sjá. Ákaflega auðvelt og gott. Sjóða hrísgrjón, búa til tómatsósu, ég geri hana úr “tomate frito” sem eru steiktir tómatar áður en þeir eru maukaðir og settir á dósir eða í fernur. Í raun er sama hvernig tómatsósu þið búið til, en kryddið hana skemmtilega. Stundum set ég Mexikanskt krydd, stundum ítölsk og stundum eitthvað annað. Þegar hrísgrjónin eru soðin og sósan tilbúin eru hrísgrjón set í litla skál eða bolla og pressuð létt, hvolft síðan á disk og sósa sett yfir, á toppin kemur svo spælt egg.

Fært undir Matur.

Ein ummæli við “Veisluhöld.”

 1. Guðmundur Óskar ritaði:

  Hæ elskan
  Gaman að heyra frá afmælinu, þetta hefur greinilega verið alveg frábært afmæli. Og takk fyrir uppskriftina af hrísgrjónunum alltaf svo gaman að fá nýjar uppskriftir. Ég verð að prófa þessa.
  Bið að heilsa
  kveðja Toný

  ps. var að spyrja Óskar í þessu hvort hann vildi segja eitthvað við þig :-) Hann biður að heilsa vinkonu þinni og segir til hamingju með afmælið (til hamingju afmælið vinkona hennar, orðrétt eftir honum) :-)