Stutt en góð jól.

Jæja, þá er jólamatnum lokið, drengirnir komnir til síns heima, eða farnir út á lífið og ég búin að ganga frá í eldhúsinu. Þetta var eins og við mátti búast hin stórfenglegasta máltíð. Meir að segja ég borðaði yfir mig af brúnuðum kartöflum, rauðkáli, soðnum ferskum gulrótum og ORA baunum með sósu. Strákarnir ná aldrei upp í það hvernig mamma getur gert svona líka góðar sósur og notar aldrei kjötsoð, heldur eru þær eingöngu gerðar fyrir alla, þ.e. kjöt og grænmetisætur.

Við ákváðum að halda áfram eins og við höfum gert í gegnum árin að borða saman um helgar, en breyta til. Venjulega hefur alltaf verið borðað á sunnudagseftirmiðdögum (þegar fer að kólna) og þá venjulega grillað. Nú hins vegar fá þeir að panta mat fyrir næstu helgi. Þetta höfum við gert í tvær helgar og tekist mjög vel, s.l. helgi var sú enskasta sem finnst, kjötpai til að mynna Binna á árin í London. Næstu helgi hafa þeir pantað ítalskan rétt sem þeir ólust upp við og ég skal setja á bloggið fyrir ykkur. En við umræðurnar í kvöld kom upp margt skemmtilegt og óvænt. Hvað börnin muna af því sem mamma bullaði í eldhúsinu þegar þeir voru að alast upp. Svo næstu vikur þarf ég að dusta rykið af heilasellunum og reyna að töfra fram bernskumynningar sona minna. Skemmtilegt og ögrandi verkefni.

Góða nótt. 

Fært undir Matur.

2 ummæli við “Stutt en góð jól.”

  1. Þórey ritaði:

    Ég hélt ég myndi missa mig úr hlátri þegar ég var að lesa síðustu tvær færslurnar hjá þér. GB er nefnilega búinn að tala um hamborgarhrygg núna sennilega í þrjár vikur. Alltaf af og til. Benti honum nú á það að hamborgarhryggur væri ekki neitt íslenskt fyrirbrigði heldur þýskt og sagði honum bara að lufsast út í búð þarna á spáni og kaupa sér hrygg og elda hann. En auðvita hefur hann viljað láta mömmu elda hann eins og í gamla daga. Hefur trúlega fengið eitthvað nostalgíukast. Undirmeðvitundin farin að sakna íslands. Annars finnst mér þetta sniðugt með helgarmatinn, alltaf gaman að rifja upp hvernig hlutirnir voru einu sinni. Ég elda mér einmitt reglulega eitthvað sem ég er vön frá því ég var að alast upp.

  2. Sigga Rúna ritaði:

    Sniðugt með “litlu jólin” hjá ykkur, og góð hefð að hittast og borða heimalagaðan “gamaldagsmat” !! Ég tek undir það með strákunum að það er ótrúlegt hvernig þú ferð að búa til allar þessar jummí sósur án þess að nota kjötkraft… Mátt erfa mig að því leyndarmáli, hihihiii. En ég er sammála Þórey með það að ég reyni líka að elda mat sem ég er vön úr æsku, þó ég sé sú eina á heimilinu sem borða hann :-) Síðast, kjötbollur, kálbögglar!! Sem ég hafði ekki borðað í fjölda ára, sælgæti en bara sjaldan.
    Endilega settu inn máltíðirnar sem þú gerir, forvitnilegt að vita hvað familían vill fá!
    Kveðja, Sigga.