Dagur 3.

Borgaði heldur betur fyrir þrifnaðaræðið í gær. Óþolandi að vera fastur heima og mega ekki eyða tímanum í löngu tímabær þrif án þess að sárin mótmæli með látum. Ég reyndar er svo heppin að hingað kemur yndisleg ung kona vikulega og þrífur, hún m.a. pússar allt gler í gluggum og það svo vel að maður gengur stundum á hurðarnar sem liggja út á terrasið því maður heldur að það sé opið. En það eru hlutir sem maður vill gera sjálfur, eins og af-frysta ísskápa ofl. En, nei takk, ég verð að bíða þess að gróa betur áður en ég fer í slíka hluti. Þá veit ég bara hvað ég geri í staðinn. Það er bunki af bókum sem ég á ólesinn, og blaðabunki sem ég þarf að fara í gegnum og henda því sem við viljum ekki eiga. Gabriel finnst að ég eigi að “njóta” þess að horfa á sjónvarpið, þar sé alltaf fullt af skemmtilegum þáttum um fræga fólkið á morgnanna og bíómyndir og sápur eftir hádegi. Heldur maðurinn að ég sé orðin elliær? Sjónvarpið bíður elliheimilisins, nema auðvitað fréttirnar og svo ein og ein mynd sem ég horfi á með honum, bara svona eins og venjulegt fólk gerir.

Lagðist út í sólbað í gær en flúði inn eftir stutta stund, hvílíkur ógnar hiti og engin andvari. Náði hreint ekki andanum, svo ég fór í rúmmið, setti loftkælinguna á fullt og fór að stúdera englaspil sem mér voru gefin. Ætla að halda því áfram í dag.

Núna er ég að fara að baka skonsur handa ungu fjölskyldunni sem fer væntanlega að koma í morgunmat til ömmu og segja henni frá ævintýrum gærdagsins. Munið að þau voru í Valencia og komu ekki heim fyrr en rétt undir miðnætti. Dásamlegt að fá þau í morgunmat, ég verð eitthvað svo mikil EKTA amma.

Hafið góðan dag öll sömul.

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.