Dagur 2 í vafningum og plástrum.

Ég er ekki í lagi…og ekki þið segja að þið hafið nú alltaf vitað það!!! Vaknaði í morgun eftir ágæta nótt en ferlega var vont að stíga fram úr. Eftir að hafa hökt um smá stund þóttist ég nú vera miklu betri. Óskar Marinó og foreldrar komu í morgunmat og fóru síðan til Valencia þar sem þau ætla að eyða deginum.  Amman sem átti að fara og leggja sig með fæturna hátt fór hins vegar að skipta á rúmminu, þvo og þrífa eldhúsið. Hvað fékk ég svo út úr því? Jú, ég er að drepast núna. Búin að taka verkjatöflu og eftir að hafa bloggað ætla ég að leggjast út í sólbað. Hér kemur svo uppskriftin af fylltu kjúklingabringunum sem ég var með um síðustu helgi og allir dásömuðu í hástert. Ég fór til slátrarans míns til að kaupa 4 bringur og hann skar þær eftir kúnstarinnar reglum þannig að hver bringa varð mátulega þunn til að rúlla upp, ef þið hafið ekki aðgang að slíkum þá er að fletja sjálfur. Það er gert þannig að hver bringa er skorin í 3 sneiðar eftir endilöngu en ekki má skera alveg í gegn, heldur verður hún eins og saltfiskflak, eða þannig.

Kjúklingabringur fylltar með skinku, ferskum jurtum og þurrkuðum tómötum.

Sem sagt, 4 kjúklingabringur, 1/2 laukur, 150 gr. sveppir í sneiðum, 6 brauðsneiðar (1-2 daga gamalt), safi úr 1 sítrónu, 1 1/2 glas vatn, 1 1/2 súputeningur, ég notaði grænmetis og þá bara 1 því þeir eru sterkir, hveiti til að velta upp úr, 100 gr. rifin parmesan ostur, 1 msk. brauðmylsna, salt og pipar, 1 vínglas af blönduðum ferskum kryddjurtum td. saxaður vorlaukur, basil, timian, persil, þetta fyllti lítið vínglas hjá mér, 2 hvítlauksrif, þunnar skinkusneiðar 4-5, 1 búnt persil, 100 gr. þurrkaðir tómatar sem hafa legið í bleyti þerraðir og skornir í strimla, 1 vatnsglas olía, 2 glös gott hvítvín.

Fyrst gerði ég jurtafyllinguna, þ.e. í matvinnsluvélina setti ég brauðið, parmesan ostinn og allar jurtirnar, blandaði því vel saman. Lagði bringurnar á borð, kryddaði þær með salt og pipar og setti skinkusneið á hverja þá brauð-jurta mylsnuna og raðaði svo tómötum ofan á. Rúllaði þétt upp og festi saman með tannstönglum. Það var gaman að eiga við hliðarnar og reyna að loka þeim sómasamlega svo allt dytti nú ekki úr. Þegar þetta var búið hitaði ég olíuna og velti bringunum upp úr hveiti og steikti vel, snéri þeim oft á meðan. Setti þær svo á fat til geymslu á meðan ég gerði sósuna. Í potti steikti ég laukinn og hvítlaukinn ásamt ca. 1/2 persil búnti, þegar það var fallega gyllt bætti ég brauðmylsnunni í, hrærði aðeins og hellti svo vatninu og víninu yfir, þarna kom svo grænmetisteningurinn í líka. Sauð upp smá stund og hrærði í á meðan. Raðaði svo bringunum í pottinn og sauð undir loki. Næst setti ég sveppina í annan pott með sítrónusafanum og lét það sjóða ca. 5 mín. hellti því þá yfir bringurnar og sauð með þar til allt var tilbúið c.a. 15-20 mín. Þetta heppnaðist mjög vel, tók dálítin tíma í undirbúningi og ég á þó nokkurn afgang af fyllingar mylsnunni sem ég setti í ísskápinn og ætla að velta fiski upp úr og steikja svo.

Þetta myndi vera fyrir 4 sem aðalréttur. Við vorum með fleiri rétti, eldaða og grillaða þannig að fólk fékk sér sneið af bringu (og svo aðra). Ég var með bakaðar kartöflur og pasta og svo auðvitað fullt af brauði. En ef ég geri þennan rétt aftur og þá sem aðalrétt eftir góðan forrétt myndi ég baka kartöflusneiðar í olíu til að hafa með, og ekki má vanta fallegt gott salat. 

Látið mig vita ef þið reynið þetta.  

Fært undir .

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.