Sunnudagskvöld eftir Gala veislu.

Dásamlegt sunnudagskvöld. Guðjón eldri borðaði með okkur ýmislegt úr hafinu sem Gabriel grillaði og ég útbjó kús-kús með þurrkuðum tómötum, bakaði brauð og hitaði upp eggjahræruna (með miklu grænmeti) sem hafði verið morgunmatur hjá okkur. Þið sem þekkið mig vitið að ég hef verið grænmetisæta (ljótt orð) í fjöldamörg ár, eiginlega 20 ár. En efitir að ég flutti til Spánar var það svolítið erfitt þegar farið var út að borða. Ekki það að fyrstu 2 árin höfðum við aldrei efni á því að borða úti. En yfirleitt er það þannig að ef maður borðar úti þá er allt sem í boði er fyrir grænmetisætur salat og grillað grænmeti. Þetta varð leiðigjarnt svo ég fór að borða túnfisk og sverðfisk, sem mér þykja mjög góðir. Og þar við situr, önnur sjávardýr eru stikk frí að ég tali nú ekki um kjöt sem ég gæti aldrei snert. Þó elda ég kjöt og þyki góður kokkur þar, en aðrir þurfa að smakka, sérstaklega sósuna ef kjötsoð er í henni. En ég ætlaði ekki að tala um þetta. Samt er einhvernveginn eins og allt snúist um mat þessa dagana:-) ekkert nýtt. Annað kvöld ætlar Haukur vinur okkar íslenskur kokkur sem hér dvelur mikið, að grilla fyrir okkur hér á okkar terrasi. Það verða 14 gestir og ég mun leggja eitthvað að mörkum, salöt, sósur ofl.

En það sem ég vildi segja var frá gala kvöldinu sem við vorum boðin til í gærkvöldi. Við vissum ekkert hvað við vorum að fara, höfum jú oft verið á gala kvöldverðum, Gabriel stendur fyrir einu slíku árlega (í oktober). Þetta var haldið í skemmtigarðinum stórkostlega Terra Mitica og við áttum að mæta kl. 21.30. Samtök viðskipta og verslunar stóðu fyrir þessu og var það í 9 sinn sem þau gera slíkt. Gabriel (og  ég) var boðin þar sem hann er varaforseti APTUR sem eru samtök skrifstofa sem leigja út íbúðir til ferðamanna, forsetinn er í sumarfríi svo við lentum í samkvæminu. Undrandi vorum við leidd til sætis næst háborðinu, úps…hvað er í gangi? Við hlið okkar sat vinur okkar, borgarstjóraframbjóðandi sósialista  í sl. 2 kosningum og fleiri sem við þekkjum. Við fengum á tilfinguna að embætti forseta APTUR þætti merkilegt. Alla vega, kl. 23.00 hófu loks ræðuhöld og verðlaunaafhendingar til einhverra sem unnið höfðu vel í þágu samtakanna. Að því loknu, rétt um miðnætti var farið að bera fram matinn, fyrst komu 5 “fyrir forréttir” þá forrétturinn, aðalrétturinn og loks eftirrétturinn. Að því loknu hófst verðlauna afhending til fyrirtækja og verslunna sem þóttu skara fram úr. Voru 4 fyrirtæki í hverjum hópi. Í hópi tískuverslana unnu góðir vinir okkar, okkur til mikillar gleði. Við vissum jú ekkert hvað við vorum að fara að upplifa þegar við lögðum að stað. Síðan kaffi og drykkir. Í ræðu viðskiptafulltrúa Benidorm og síðar ræðu borgarstjórans kom fram að 6 miljónir manna heimsækja Benidorm á hverju ári, og allir kaupa…Þannig er bara maðurinn. Við fórum glöð heim, höfðum lært eitthvað nýtt.

Nú á sunnudagskvöldi, eftir að hafa legið í sólinni allan daginn og borðað vel, sé ég rúmmið mitt í hillingum. Gabriel kaus að liggja inni og horfa á sjónvarp allan daginn, fannst allt of heitt til að fara út. En við erum sammála því að komin er háttatími.

Góða nótt.

Fært undir .

Ein ummæli við “Sunnudagskvöld eftir Gala veislu.”

  1. Þórey ritaði:

    Nammi namm, þetta hefur verið æði, get rétt reynt að ímynda mér það. Sleikti allavega út um þegar ég var að lesa þetta um forrétti. Elska forrétti. Þetta eru ansi margir ferðamann, mér sem finnst alltaf svo passlega margt fólk þarna á ferðinni í þau skipti sem ég hef verið á Benidorm, og þau eru nú ansi mörg ;)