Göngugarpur

Jæja, þá er ég farin að ganga til og frá vinnu, og er ekkert smá ánægð með sjálfa mig. Fyrst á morgnanna trítla ég niður 326 tröppur og er þá komin á ströndina, þá tekur við yndisleg ganga eftir ströndinni. Þar eru margir á ferli snemma morguns, sumir að skokka, en flestir eru á göngu eða sitja á bekkjum og njóta lífsins. Enn eru þó hópar hér og hvar í sandinum við leikfimisæfingar, það fer þó að hverfa, bæði vegna þess að hitinn er orðinn það mikill á morgnanna og svo eru eldriborgarar sem hér eyða vetrunum farnir að tínast heim.

Dagurinn líður svo við mismikla hreyfingu. Suma daga, eins og í dag, er ég á hlaupum um bæinn í ýmsum erindum en aðra daga sit ég á skrifstofunni. Síðan tekur við sama prógram og á morgnann. Geng hressilega eftir ströndinni heim og klifra svo þessar 326 tröppur upp fjallið. Ég er nú ekki eins spræk þá eins og á morgnanna, en sjálfsánægjan er mikil þegar ég er komin upp. Í gær borðuðum við í hádeginu á ströndinni með skemmtilegum hóp og ég fékk Gabriel til að ganga fram og til baka.

Ég ætla að skella mér til Osló í júlí til að hitta Uglurnar vinkonur mínar. Við ætlum að safnast þar saman til að halda upp á 20 ára vináttu okkar. Hlökkum allar mikið til, enda mikið á dagskránni. Lovísa sér um að gera þá dagskrá. Við munum stoppa mislengi en ég verð 5 daga.

Nú er komið að göngunni heim, svo ég kveð í bili.

Fært undir .

Ein ummæli við “Göngugarpur”

  1. Dísa ritaði:

    Það er nú ekki sjálfgefið að nenna að ganga 326 tröppur 2svar á dag. Mörgum finnst nóg að fara upp tröppurnar við Akureyrarkirkju einu sinni á ári, og þær eru bara 104 minnir mig (+,- eitthvað). Ég ætti kannski að koma til þín í þjálfunarbúðir þegar ég er búin að eiga.