Sól og sumar.

Jæja, þá erum við búin að hafa sumarveður í tvo heita sólríka daga. Á sunnudaginn var borðuðum við Gabriel á ströndinni í góðu veðri en ekki í líkingu við það sem nú er. Svo páskarnir eru planaðir í sólbað og smá vinnu.

Ég átti mjög góðan tíma á Íslandi. Var hjá Gumma og fjölskyldu nokkra daga, í Stykkishólmi hjá Daníel og fjölsk. einnig í nokkra daga, að öðru leiti gisti ég hjá mömmu. Eina helgi fór ég ásamt uglum (hressum vinkonum,ekki fuglum) í Ölvusborgir. Þar áttum við stórkostlega helgi, gengum í fjallinu ofan við bústaðina og til Hveragerðis, borðuðum og drukkum vel. Að svo ógleymdri árshátíð okkar sem við héldum á laugardagskvöldinu. Það var sko alvöru árshátíð, uglur klæddar í jólafötin og eftir að hafa borðað margréttaða máltíð var dansað fram eftir nóttu. Héldum svo þreyttar til höfuðborgarinnar eftir hádegi á sunnudeginum.

Ég hitti líka mikið af vinum sem marga hverja ég hef ekki hitt lengi. Veisluhöldin voru mikil, fyrst skírnarveisla hjá Valtýr frænda mínum svo fermingarveisla hjá Siggu systir. Hjörleifur yngsta systkynabarn mitt var fermdur og haldin ver vegleg veisla.

Mér þótti stórkostlegt að vera í Stykkishólmi þó ég hafi verið veik meðan ég var þar, komst þó út að ganga með Siggu Rúnu og Töru Kristínu einn stórkostlega fallegan dag, nýfallinn snjór og blanka logn. Það er svo fallegt í Hólminum og útsýnið úr stofunni hjá krökkunum er slíkt að maður getur setið við gluggan allan daginn og látið sig dreyma.

Það eina sem ég get kvartað yfir er veðrið, en hver er hissa á því. Ég bara skil ekki hvernig þið getið búið við þetta. Og þó! Alltaf kemur maður með aukna orku eftir að hafa farið út á land og komis í beina snertingu við náttúruna.

Nú er ég að aðstoða 7 manna hóp Spánverja sem eru að fara til Íslands í júní og hlakka mikið til. Mjög skemmtilegt verkefni.

Farin í kaffi. 

Fært undir Blogg.

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.