Sunnudagur og enn rignir.

Þá er komin sunnudagur og ný vika að hefjast. Hér rignir enn, reyndar bara það sem á íslensku heitir úði, en blautt engu að síðu. Sama spá á morgun. Ég er enn ekki farin að fá Binna til að hjálpa mér að setja inn mynir af barnabörnunum en það verður á næstu dögum. Ég er með svo dásamlegar myndir af þeim.

Gummi minn svaraði skrifum mínum um stjórnmál og biður mig lengst allra orða að skipta mér ekki af stjórnmálum á Íslandi þar sem ég sé svo löngu burtflogin. Ég get að mörgu leiti skilið rök hans og gæti hugsanlega tekið þau til greina. Annars er mér bara ekki sama við hvaða kjör barnabörnin mín alast upp við. Og mér finnst tími til komin að Íslendingar fari að vernda þetta stórkostlega fallega land sitt. Nógu illa fara önnur lönd með síðar auðlindir. Nóg um það.

Við hjónin áttum dásamlegan dag í gær. Gabriel kom frá Madrid í fyrrakvöld og í gærmorgun stakk hann upp á að við eyddum deginum í Alicante??? Ég greip tækifærið, við höfðum jú ætlað á útsöluna hjá El Cort Inglés, sem er stórt magasin, eins og Selfridges ofl. Við byrjuðum á því að borða hádegismat og síðan hófst gangan um verslarninar, þær eru þrjár við sömu götu. Héldum svo heim undir kvöld með fulla poka af fatnaði ofl. Fórum m.a. í “Gourmate” deildina þar sem við keyptum lúxusvörur eins og kaffibaunir fyrir kaffivélina sem við fengum í jólagjöf. Það er engin smá vél. Hún malar baunirnar fyrir hvern bolla og svo er bara hægt að biðja um það sem hugurinn girnist. Allt sem þarf að gera er að setja bollan á sinn stað og ýta svo á takka, vilji menn hins vegar cappochino þarf að hita og freyða mjólkina með sérstöku apparati, en það er nú engin vinna. Í sömu deild keyptum við líka ólívu olíu, sér valda eftir kúnstarinnar reglum og hún er pökkuð í fallega járn “dós” eins og fínt áfengi. Það fylgir í boxinu sérstakur tappi sem setja á í flöskuna eftir að hún hefur verið opnuð. Bara eins og flottasta koníak. Mér var hugsað til þessarar olíu í morgun þegar ég helti extra virgin olíu yfir brauðið mitt. Þið vitið kanske ekki að hér er ekki notað smjör, við hellum ólífuolíu yfir brauðið, enn ein ástæða þess hvað hjarta og kransæða sjúkdómar eru í lágu hlutfalli hér. En olían fína sem við keyptum í gær fer með mér til Íslands þar sem ég ætla að gefa hana.

Gabriel eldaði í hádeginu í dag einn af mínum uppáhaldsréttum, upprunnum í Alcoy, hans heimabæ. Drukkum gott rauðvín með. En áður en við settumst við mtarborðið kláruðum við loks herbergið sem ég hef áður minnst á og beðið hefur síðan ég kom frá Kanari. Svo var bara að horfa á sjónvarpið eftir matinn. Spánverjar eru svo skemmtilegir, þ.e. sjónvarps stöðvarnar, þeir eru alltaf með tvær bíómyndir á sunnudags eftirmiðdögum.  Svo “heima er best” hefur verið okkar í dag.

Datt í hug að deila með ykur einu af mínum heilræðum, auðvitað fengið lánað frá útlenskri konu, en sígilt.

Fortíðinni færðu ekki breytt, en daginn í dag geturðu eyðilagt með áhyggjum af framtíðinni.

Gleðilega vinnuviku.

Fært undir Blogg.

Lokað hefur verið fyrir ritun ummæla.